Rosalegur hasar er í nýjustu mynd Vin Diesels, Bloodshot, þar sem Jóhannes Haukur Jóhannsson fer með hlutverk. Vin Diesel, Eiza González, Sam Heughan, Toby Kebbell og Guy Pierce fara einnig með hlutverk í myndinni.

„Ég er búinn að vera í erlendum verkefnum undanfarin ár og er kominn á þann stað að geta aðeins valið úr. Ekki mikið en smá. Fyrst sagði ég já við öllu en ef verkefni lenda á sama tíma, hvort sem það er sjónvarpssería eða kvikmynd, þá get ég valið. Auðvitað er það mikið lúxusvandamál,“ sagði Jóhannes Haukur við Fréttablaðið þegar hann landaði hlutverkinu. Jóhannes leikur eitt illmennanna í myndinni og lék í þremur senum á móti Diesel.

Sony og Valiant, sem gaf út Bloodshotsögurnar, gerðu með sér fimm mynda samning 2015. Fyrsta myndin er um Bloodshot, leikinn af Vin Diesel, og næstu tvær um aðra hetju sem kallast Harbinger og síðasta myndin í seríunni verður samkrull um þá tvo.

Myndin er væntanleg í bíó vestanhafs í febrúar á næsta ári.