Það er er eðlilega mikið að gera hjá Maríu Thelmu í skarkalanum í Cannes þar sem hún er stödd þessa dagana að kynna kvikmyndina Arctic. Reyndar er svo mikið að gera að hún átti erfitt með að finna tíma til að spjalla um viðtökurnar sem myndin hefur fengið og sitt hlutverk – en þetta er fyrsta stóra hlutverk hennar í kvikmynd.

Íslenskir áhorfendur muna eftir henni úr þáttaröðinni Föngum, þar sem hún lék Írisi.

Erlendir fjölmiðlar hafa einnig tekið vel í klæðaburð hennar á rauða dreglinum og á kynningum. María hafði heldur ekki tíma til að ræða kjólana og sagðist vera í samningaviðræðum um að ræða slíkt í öðrum miðli. Væntanlega má gera ráð fyrir að sá fjölmiðill sé erlendur enda hélt hún spilunum þétt að sér.

Eðlilega var ekki hægt að ræða við Maríu um næstu skref á hennar ferli og hvort myndin og glæsileiki hennar á rauða dreglinum hefðu opnað einhverjar dyr. Hvort Hollywood biði með hlýjan faðm. Hún er á samningi hjá Þjóðleikhúsinu og á síðasta leikári lék hún Li Na í verkinu Risaeðlunum þar sem Edda Björgvinsdóttir og Pálmi Gestsson léku einnig. Hún útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands vorið 2017.

Arctic skartar Maríu og dönsku ofurstjörnunni Mads Mikkelsen í aðalhlutverkum. Leikstjóri er Brasilíumaðurinn Joe Penna sem sló fyrst í gegn á YouTube. Þar kallaði hann sig MysteryGuitarMan og var með þrjár milljónir manna í áskrift að efni frá sér.

Myndin var sýnd fyrir troðfullum sal og þegar henni lauk stóð fólk upp og klappaði út í eitt í hartnær tíu mínútur eftir því sem Penna sagði.