Þeim Klemens Hannigan og Ronju Mogensen fæddist stúlkubarn í dag. Fæðingin fór fram á heimili þeirra, í baðkarinu nánar tiltekið. Fyrir eiga þau dótturina Valkyrju sem verður tveggja ára á þessu ári.

Klemens er annar söngvara hljómsveitarinnar Hatara sem tók þátt fyrir Íslands hönd í Eurovision í Tel Aviv nýverið. Ronja, sem hefur einnig látið til sín taka á listsviðinu, lét meðgönguna ekki stöðva sig og ferðaðist með til Ísrael.

„Ég fæddi aðra dóttur, í baðkarið mitt, ein með sjálfri mér (og Klemens),“ skrifaði Ronja í færslu á Instagram þar sem hún greindi frá gleðitíðindunum.