Ólíklegt er að réttað verði yfir bandaríska klámleikaranum Ron Jeremy sem ákærður hefur verið fyrir tugi kynferðisbrota. Talið er líklegt að Jeremy verði úrskurðaður óhæfur til að taka þátt í réttarhöldunum vegna heilabilunar.
Los Angeles Times greinir frá þessu en hann var sakaður um að hafa brotið kynferðislega gegn yfir 20 konum. Átti Jeremy, sem er 69 ára, yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.
Í frétt Times kemur fram að réttarhöldin hefðu átt að byrja á liðnu ári, en þeim var frestað eftir að lögmaður Jeremy upplýsti dómara og saksóknara um að skjólstæðingur hans þekkti hann ekki lengur.
Í frétt Times kemur fram að þar til bærir sérfræðingar hafi lagt mat á heilsu Jeremy og komist að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki hæfur til að sitja réttarhöldin. Talið er líklegt að formleg ákvörðun um þetta liggi fyrir í næstu viku.