Landsliðskonan Elín Metta Jensen hefur verið í Val alla sína fótboltaævi. Hún á margar dýrmætar minningar úr Val og segir þær ekki síst tengjast liðsfélögum og fólkinu í Val.

„Ég var tæplega 5 ára gömul þegar ég fór á mína fyrstu æfingu hjá Val, og ég man að hún var á malarvellinum. Ég man samt lítið eftir æfingunni sjálfri en eftir þetta tók ég nánast alltaf boltann með mér þangað sem ég fór. Eldri systkini mín voru bæði í fótbolta og pabbi var mikill Valsari þannig það var ekki beint mikil uppreisn fólgin í því að ég skyldi ákveða að byrja að æfa fótbolta með Val,“ segir Elín Metta Jensen, Valsari frá fyrstu tíð og landsliðskona í knattspyrnu.

„Það dýrmætasta sem ég á úr Val eru minningarnar með fólkinu þar, og þá sérstaklega liðsfélögunum. Mér finnst ég hafa lært ýmislegt af þeim og af sumum þjálfurum líka. Mér finnst margar fótboltastelpur sem ég þekki, bæði úr Val og öðrum klúbbum, búa yfir gríðarlega mikilli orku og vilja til að gera hlutina vel. Það er mjög hvetjandi að vera í kringum svoleiðis manneskjur.“

Elín Metta hér í harðri baráttu um boltann með meistaraflokki Vals, en hún leikur einnig með kvennalandsliði Íslands í knattspyrnu. MYND/AÐSEND

Sætir sigrar og æskuminningar

Öll sumur æskunnar var Elín Metta vön að fara í Knattspyrnuskóla Vals með vinkonum sínum úr Val.

„Ég á margar góðar minningar frá löngum sumardögum þar sem við æfðum oft tvisvar á dag, og kíktum jafnvel í sund eða Nauthólsvíkina eftir æfingar. Þetta var oft og tíðum mikið álag en mér fannst þetta virkilega skemmtilegt,“ segir Elín Metta og rifjar upp sína kærustu minningu úr Val, þegar kemur að félags- og liðsandanum.

„Mér fannst mjög skemmtilegt að fara á Dana Cup í 3. flokki. Ferðin var í heild sinni mjög skemmtileg enda margar af mínum bestu vinkonum með í för. Það voru tveir hlutir sem stóðu upp úr: í fyrsta lagi fórum við á geggjað diskótek sem var haldið fyrir mótsgesti og í öðru lagi unnum við mótið sem var algjört æði,“ segir Elín Metta og hlær við, sællar minningar.

Leikgleði og barátta í hávegum

Elín Metta mælir hiklaust með því að stelpur sem hafa áhuga á fótbolta og því að hreyfa sig komi og prófi að æfa með Val.

„Heilt yfir þykir mér leikgleði og barátta einkenna þær knattspyrnukonur sem ég hef spilað með í Val. Þegar ég var yngri voru Dórurnar tvær (Dóra María Lárusdóttir og Dóra Stefánsdóttir) ásamt Margréti Láru í miklu uppáhaldi. Ég leit líka mikið upp til Kötu Jóns,“ segir Elín Metta um fyrirmyndir sínar úr röðum kvennaboltans í Val.

Spurð um sætasta sigurinn segir Elín Metta:

„Með Val er það örugglega Íslandsmeistaratitillinn 2019 og með landsliðinu er það sennilega sigurinn okkar á Þjóðverjum um árið.“

Það er nóg að gera hjá Elínu Mettu sem lýkur þriðja ári í læknisfræði í vor og spilar auk þess með meistarflokki kvenna í Val og kvennalandsliðinu í fótbolta. Henni finnst alltaf jafn gaman að vinna leiki. FRÉTTABLAÐIÐ/ANTON

Orð séra Friðriks gott veganesti

Elín Metta lýkur þriðja ári í læknisfræði í vor.

„Ég get ekki sagt að ég hafi sérstakan áhuga á íþróttaálagi og meiðslum, það eru aðrir hlutir í læknisfræðinni sem mér finnst skemmtilegri. Almennt er ég þó frekar áhugasöm um heilbrigðan lífsstíl og eftir rúm tuttugu ár af nánast stanslausum fótboltaæfingum hef ég komist að því að hreyfing er mjög mikilvæg fyrir andlega og líkamlega heilsu, að minnsta kosti í mínu tilviki.“

Hún er og verður alltaf Valsari.

„Já, römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til. Það er svo reyndar misgaman á æfingum en þegar Pétur Péturs og Eiður Ben hafa vit á því að hafa reitarbolta og spil á æfingu er yfirleitt skemmtilegt að vera til. Annars finnst mér heilt yfir alltaf jafn gaman að vinna fótboltaleiki,“ segir Elín Metta.

Afmælisósk hennar til Vals á 110 ára afmælinu er eftirfarandi:

„Ég vona að Valsarar hafi orð séra Friðriks í huga og láti ekki kappið bera fegurðina ofurliði.“