Hjördís Rut Sigurjónsdóttir byrjaði í blaðamennsku á Fréttablaðinu fyrir átján árum og fór þaðan vítt og breitt um íslenskt fjölmiðlalandslag. Hún lét meðal annars til sín taka í fréttum Stöðvar 2 í tvö ár, ritstýrði síðan glanstímaritinu Nýju Lífi og endaði loks hjá RÚV þangað sem hún er aftur komin eftir rúmlega sjö ára útlegð frá fjölmiðlum í Svíþjóð.

„Börnin eru búin að vera sjö ár í Svíþjóð þannig að það þurfti að fara að huga að því hvort þau ættu að verða sænsk eða íslensk þannig að það má segja að breyttar fjölskylduaðstæður ráði mestu um að ég er komin aftur heim,“ segir Hjördís sem rann síðan hingað komin beint í gamla fjölmiðlafarið.

„Það er alltaf freistandi að fara í atið enda er þetta bara skemmtilegasta vinna sem ég hef unnið. Vinnudagurinn líður alltaf svo hratt vegna þess að það er alltaf eitthvað að gerast og maður veit aldrei hvað nýr dagur ber með sér,“ segir Hjördís sem á ekki langt að sækja fjölmiðlafíknina verandi dóttir þess gamla fréttahunds, Sigurjóns M. Egilssonar, SME, sem var fréttaritstjóri Fréttablaðsins um árabil svo eitthvað sé nefnt.

Úr eldinum á Bessastaði

„Allt í einu var maður komin upp að gosinu, sem ég hafði ekki fengið tækifæri til að sjá áður og fékk að upplifa það á vinnutíma,“ segir Hjördís þegar hún áréttar fjölbreytileika fréttadaganna en á kosningahelgarvaktinni brá hún sér til dæmis á Bessastaði og tók stöðuna á Guðna Th. Jóhannessyni sem þá sá fram á merkilega náðuga daga á forsetastóli í kjölfar alþingiskosninganna.

Þótt starfið sé líflegt áréttar Hjördís að hún hafi alls ekki flutt heim til þess að starfa á fjölmiðlum. Þegar heim var komið hafi henni hins vegar boðist vinna á fréttastofu RÚV. Tilboð sem erfitt var að hafna þótt ráðningin sé tímabundin. Þangað til annað kemur í ljós að minnsta kosti.

„Ég þurfti náttúrlega svolitla tæknilega upprifjun og síðan þarf aðeins að dusta rykið af tengslanetinu og átta sig á við hvern á að tala hverju sinni,“ segir Hjördís og bendir á að þótt starfið sé nánast alltaf eins þá sé umhverfið sem blaðamaðurinn lifir og starfar í stöðugt að breytast og þróast.

„Ég treysti á vinnufélagana þegar á reynir en þeir eru margir og góðir. Það er ótrúlega gaman að vera komin inn á þennan vinnustað og hitta þar fyrir marga sem maður hefur unnið með áður í bland við nýtt og ekki síður skemmtilegt fólk.“

Út í óvissuna

Hjördís ratar í það minnsta um gangana í Efstaleitinu þar sem hún starfaði áður en hún hélt til Svíþjóðar í mastersnám í mannvistarlandfræði þaðan sem hún festist síðan í starfi hjá Nordregio.

„Þetta er norræn stofnun sem fæst við byggðarannsóknir og var stofnuð af Norrænu ráðherranefndinni. Þar fann ég næstum eina djobbið þar sem kemur sér vel að tala íslensku. Þetta var alger tilviljun. Ég var lærlingur þarna til að byrja með en þau slepptu síðan ekki af mér hendinni,“ segir Hjördís og hlær.

Hjá Nordregio sökkti Hjördís sér í félagsfræðirannsóknir sem hún segir um margt svipa til blaðamennsku þótt með öðrum formerkjum sé. „Þetta eru svipaðar kúríósur og í blaðamennskunni þótt maður geti kafað dýpra ofan í hvert viðfangsefni og hraðinn sé ekki sá sami.

Þetta leiðir mann líka á alls konar staði sem maður hefði annars aldrei heimsótt,“ segir Hjördís og telur upp nokkur örnefni sem er hvorki heiglum hent að bera fram né stafsetja. „Það munaði engu að ég færi til Múrmansk í Rússlandi en Covid eyðilagði það,“ segir Hjördís sem veit ekkert hvert næsti fréttadagur muni leiða hana en hún er til í tuskið og hasarinn.