Kraftmetalhljómsveitin Power Paladin sækir nafn sitt í hlutverkaspilið Dungeons and Dragons þannig að fantasían er eðlilega allsráðandi á fyrstu plötu sveitarinnar, With the Magic of Windfyre Steel, sem er loksins komin út.

„Við erum í auga stormsins akkúrat núna,“ segir trommarinn Einar Karl Júlíusson, einn hetjurokkaranna sex sem skipa Power Paladin. „Viðbrögðin hafa farið fram úr okkar björtustu vonum. Þetta er búið að vera hálfgerð geðveiki.“

Einar segir Covid-ástandið hafa hjálpað sveitinni að stilla saman strengi sína auk þess sem henni hafi borist óvæntur liðsauki alla leiðina frá Melbourne í Ástralíu þegar kom að gerð tónlistarmyndbands við lagið Creatures of the Night.

Myndbandið er, eins og platan sjálf, það fyrsta sem sveitin sendir frá sér en í því má sjá þá félaga í teiknimyndagír berjast við illar vættir og úlfa á stjörnubjartri nóttu.

„Animation-deild háskólans í Melbourne í Ástralíu hafði samband við plötuútgáfuna okkar og bauðst til að gera myndband fyrir okkur, svo þetta var í rauninni gefins,“ segir Einar og bætir við að þeir séu gríðarlega ánægðir með útkomuna.

Barist í teiknimynd

„Við vorum líka spenntir því þau höfðu áður gert vídeó fyrir önnur stór bönd. Ég er ekki að segja að við séum stórt band, heldur að þetta voru önnur bönd sem við þekkjum,“ segir Einar hlæjandi.

Háskóli í Melbourne í Ástralíu kom að gerð myndbandsins
mynd/Aðsend

Hann segir lagið og myndbandið fanga vel það sem Power Paladin stendur fyrir sem hljómsveit og sjálfsagt munu margir kannast við vísanir í þættina It’s Always Sunny in Philadelphia í laginu.

„Þarna erum við í teiknimyndaformi í bænum að berjast fyrir lífi okkar á móti næturverunum. Þetta fór fram úr öllum okkar væntingum og þau sögðu í raun að þetta hefði bara skrifað sig sjálft,“ segir Einar.

Ekki Marvel-band

Fantasíuaðdáendur fá svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð í tónlist sveitarinnar en á plötunni eru lög eins og Dark Crystal og Way of Kings. Þá er Kraven the Hunter, illmenni úr Spiderman, tileinkað samnefnt lag á plötunni.

„Við erum í fantasíudeildinni. Eða, ekki deildinni heldur bókmenntum og því. Kraven smellpassaði svo við það sem við vorum að spá í fyrir lagið. Planið er kannski ekki að stimpla okkur inn sem eitthvert Marvel-band,“ segir Einar enn hlæjandi. „En lagasmíðar okkar snúast um fantasíu, dreka, riddara og galdrakarla.“

Einar er í framhjáhlaupi, en að gefnu tilefni, spurður út í nýjustu kvikmyndina um Köngulóarmanninn þar sem hvert gamalkunnugt illmennið á fætur öðru mætir til leiks þótt Kraven the Hunter sé að vísu fjarri góðu gamni.

„Nokkrir í bandinu eru einmitt búnir að sjá myndina. Við erum að binda vonir okkar við að hann mæti í sinni eigin mynd á næstunni og bíðum við símann!“

Þrátt fyrir að Covid hafi gert sexmenningunum kleift að stilla saman strengi sína setur það strik í reikninginn upp á framhaldið. „Við vonumst til þess að geta gert eitthvað í apríl en svo er þetta bara flæðandi. Við sjáum til hvað okkur býðst og höfum fengið nokkur tilboð um að spila á hátíðum erlendis og það gæti gerst. Þetta er mjög spennandi.“