Brynhildur Oddsdóttir, söngkona og gítarleikari hljómsveitarinnar Beebee and the Bluebirds, hefur í nógu að snúast þessa dagana. Hljómsveitin gaf nýlega út sína aðra plötu, Out of the dark, sem hefur fengið afar góðar viðtökur. „Á föstudaginn höldum við tónleika á Græna hattinum á Akureyri. Við erum mest komin út í rokktónlist en í grunninn er Beebee and the Bluebirds blús-, rokk- og sálarband,“ segir Brynhildur.

Hljómsveitin hefur komið víða við og spilað á tónlistarhátíðum á borð við Icelandic Airwaves, Blúshátíð Reykjavíkur, Drangey Music Festival, auk hátíða erlendis. Brynhildur segir spennandi tíma fram undan hjá sveitinni og stefnan er að spila á tónlistarhátíðum í sumar.

Spáir þú í hverju þú klæðist þegar þú kemur fram? „Já, algjörlega. Ég er mest í rokkuðu lúkki og þá helst fötum úr leðri eða með kögri. Ég er mikið í svörtum fötum eða glans. Stundum er ég með áberandi skartgripi til að poppa upp lúkkið. Ég held að heildarsvipurinn skipti máli og sé í samræmi við hvað maður gerir. Ég fylgi ekki algjörlega nýjustu tískustraumum heldur vil frekar skapa minn eigin stíl.“

Hvernig myndir þú lýsa þínum fatastíl? „Mér finnst gaman að vera í götustíl, t.d. svörtum buxum eða gallabuxum, leðurjakka og Dr. Martens skónum mínum. Svo er skemmtilegt að poppa þennan stíl upp og gera hann aðeins meira fansí með því að klæðast töff gervifeldi yfir. Dagsdaglega klæði ég mig gjarnan á þennan hátt og svo finnst mér gervifeldurinn gera mig aðeins fínni.“

Hvar kaupir þú föt? „Hér og þar. Ég kaupi föt sem mér finnst falleg og það skiptir mig ekki máli úr hvaða búð þau eru. Ég fer oft í second-hand búðir og á fatamarkaði. Ég kaupi helst skó frá góðu merki, mér finnst mikilvægt að eiga góða skó.“

Finnst þér skemmtilegt að kaupa föt? „Já, alltof gaman. Sem dæmi þá á ég allt of mikið af jökkum. Ég held ég sé með jakkablæti. Það er rosalegt. Ég er nýbúin að kaupa mér tvo gervipelsa þótt ég eigi skrilljón jakka. Falleg yfirhöfn setur líka punktinn yfir i-ið, ekki síst í köldu veðri. Mér hefur líka alltaf þótt gaman að kaupa mér skó.“


Hvaða litum klæðist þú helst? „Svörtum og síðan er gaman að hafa einhvern lit með sem sker sig úr, t.d. rauðan. Ég er líka mikið fyrir föt í felulitum og á jakka, kjóla og buxur með þannig mynstri.“

Áttu þér uppáhalds fataverslun? „Ég fer bara inn í þá búð sem er með falleg föt í útstillingarglugganum. Mér finnst Gyllti kötturinn flott búð og Spútnik líka.“

Áttu uppáhaldsskó? „Dr. Martens skórnir mínir eru í algjöru uppáhaldi hjá mér. Ég fer varla úr þeim.“

Notar þú fylgihluti? „Já, ég er mikið fyrir hálsmen, helst stór og áberandi. Mér finnst þau þurfa að vera með, ekki síst ef ég er í látlausum fötum.“

Bestu fatakaupin? „Tvímælalaust tveir jakkar sem ég fékk á klink úti í Bandaríkjunum.“

Áttu flík sem þú getur ekki verið án? „Svörtu buxurnar mínar frá Freddy’s. Þær eru algjörlega ómissandi í minn fataskáp.