Aðdáendur James Bond og hljómsveitarinnar Duran Duran minntust þess í síðustu viku að þá voru 35 ár liðin frá frumsýningu fjórtándu James Bond-myndarinnar, A View to a Kill. Ágætis tilefni svo sem til að lyfta glösum með hristum og óhrærðum hanastélum, þótt það kunni að hafa verið með einhverjum trega.

Í fyrsta lagi er myndin almennt talin með þeim allra sístu í nú rúmlega 50 ára gömlum myndabálkinum og hún bar einhvern veginn með sér að Roger Moore var kolfallinn á tíma í aðalhlutverkinu og yfir söguþræðinum sveif doði andleysis sem Christopher Walken, Grace Jones og vinsælustu hljómsveit þess tíma, Duran Duran, tókst tæplega að breiða yfir.

Walken og Jones fóru engu að síður mikinn í hlutverkum illvirkjanna Max Zorin og May Day sem var óvenju öflug og sterk kona svona miðað við kvenpersónur Bond-mynda almennt og flóðlýsti um leið hversu gamall og gugginn Moore var orðinn.

Sjálfsagt kom sú staðreynd leikaranum sjálfum minnst á óvart en hann er enn elsti maðurinn sem hefur leikið Bond, auk þess sem hann á enn metið yfir fjölda mynda en A View to a Kill varð hans sjöunda og síðasta.

Moor­e var 57 ára þegar hann lék í myndinni og árin tvö sem höfðu liðið frá Octopus­sy höfðu greini­lega sett sitt mark á hann. Fréttablaðið/Anton Brink

Moore var 57 ára þegar hann lék í myndinni og árin tvö sem höfðu liðið frá Octopussy höfðu greinilega sett mark sitt á hann. Sjálfur sagðist hann hafa ákveðið að láta gott heita þegar hann áttaði sig á því að hann væri eldri en móðir Tönju Roberts sem lék Stacey Sutton, ástarviðfang Bonds í myndinni.

Christopher Walken hafði hins vegar minna en ekkert fyrir að snara sér í gervi síkópatans Zorin þótt hlutverkið hafi verið skrifað með sjálfan David Bowie í huga. Sá mun hins vegar hafa afþakkað rulluna, þar sem hann „nennti ekki að eyða fimm mánuðum í að horfa á áhættuleikarann sinn falla fram af björgum.“ Samkvæmt annálum höfnuðu Sting, Mick Jagger og Rutger Hauer einnig hlutverkinu áður en Walken tók það að sér með sínum einstaka stæl.

Lagið varð betra en myndin

A View to a Kill varð ekki aðeins svanasöngur Moore í hlutverki Bonds, því titillagið reyndist það síðasta sem Duran Duran kom inn á vinsældalista í háa herrans tíð. Þótt sveitin væri á hátindi frægðar sinnar 1985 voru komnir alvarlegir brestir í samstarf fimmmenninganna og þegar myndbandið við lagið var tekið upp í París var þess vandlega gætt að þeir þyrftu ekki að deila senum og eyða óþarflega miklum tíma saman.

Breytir því þó ekki að lagið eldist miklu betur en myndin sjálf og á sjálfsagt sinn þátt í að þrátt fyrir þreytu, gigt og elliglöp er A View to a Kill hjúpuð einhverjum óræðum dýrðarljóma sem hefði aðeins getað orðið til í eitísinu og þótt súpergrúppan Duran Duran væri að gliðna í sundur undan ofsafengnum vinsældum og útblásnum egóum meðlima hennar, þóttust fimmmenningarnir hafa himin höndum tekið þegar þeir fengu að semja titillag A View to a Kill.

Söngvaranum Simon Le Bon og bassaleikaranum John Taylor hafði orðið tíðrætt um aðdáun sína á James Bond og ljúfar bernskuminningar tengdar Thunderball, From Russia with Love og Goldfinger.

John Taylor hress í Reykjavík í fyrra en það var fyrir stærilæti hans í gleðskap í Lundúnum á miðjum níunda áratugnum sem Duran Duran landaði Bond-laginu.
Fréttablaðið/Samsett

John Taylor er svo skuldlaust eignaður heiðurinn af því að Duran Duran fékk tækifæri til þess að slá enn einu sinni í gegn með fulltingi 007, en hann mun hafa verið vel við skál í samkvæmi í Lundúnum þegar hann sveif á Albert R. Broccoli, framleiðanda Bond-myndanna, og spurði hvenær hann ætlaði aftur að bjóða upp á almennilegt titillag.

Broccoli tók bassaleikarann á orðinu þannig að sjálfur Elton John missti þarna af Bond-lestinni og þvingað samstarf Duran-drengjanna við John Barry, hirðtónskáld myndabálksins, skilaði einu besta titillaginu við eina sístu Bond-myndina.