Leikarinn, sjómaðurinn og matgæðingurinn Þröstur Leó Gunnarsson hefur hnýtt á sig svuntuna og verður gestakokkur á hótelinu Hlemmur Square næstu tvær vikurnar.

Þröstur Leó er ástríðukokkur og hefur á síðustu árum helst eldað sjávarfang sem hann dregur sjálfur að landi enda gamalreyndur sjómaður. Á meðan hann stendur í eldhúsinu á Hlemmi mun hann bjóða upp á þrjá rétti sem innihalda meðal annars hrátt hvalkjöt í teriyaki sósu, graflax og klassíska íslenska kjötsúpu þar sem íslenskt lambakjöt, brasað upp úr Kalda-bjór, er meginuppistaðan.

Allir eftirréttirnir sem Þröstur Leó reiðir fram á Hlemmi eru eftir eiginkonu hans, Helgu Sveindísi Helgadóttur, meðal annars bláber í sýrðum rjóma með Toblerone-súkkulaði.

Þröstur Leó tók að sér hlutverk gestakokks á Hlemmi Square fyrir tilstilli eiganda hótelsins, Þjóðverjans Klaus Ortlieb, sem hefur áratuga reynslu af hótelresktri og hefur meðal annars komið að rekstri hins þekkta Claridge-hótels í  London, nokkurra hótela í New York og Hotel Modern í New Orleans. 

Hlemmur Square er fyrsta hótelið sem hann opnar í Reykjavík en þegar hann var fenginn til þess að stýra Hlemmi Square 2014 er óhætt að segja að heldur betur hafi lifnað yfir svæðinu.

„Hugmyndin að baki Hlemmur Square var að endurvekja hluta gömlu Reykjavíkur,“ segir Klaus sem kom fyrst til Íslands á unglingsárum og kolféll fyrir landi og þjóð.

„Mér er það mikill heiður að fá tækifæri til þess að kynna minn góða vin. Þröst Leó, fyrir gestum okkar. Ég hef fengið nokkur tækifæri til þess að njóta eldamennsku hans heima hjá honum og fæ núna tækifæri til þess að deila þeirri ánægju með fólkinu í Reykjavík.“