Stundum eru tilviljanir svo ótrúlegar að ekki er annað hægt en að hugsa hvernig í ósköpunum þær hafi gerst. Það má segja um forsíðu Fréttatímans í lok árs 2013.

Bára Halldórsdóttir er af mörgum talin þjóðhetja sem eigi skilið einhvers konar verðlaun í lok árs fyrir upptöku sína af Klaustri. Á upptökunum mátti heyra sex þingmenn ræða á ódrengilegan hátt um samstarfsmenn sína, konur, fatlaða og samkynhneigða.

Klaustursþingmenn Miðflokksins hafa ráðið sér lögfræðing til að kanna hvort Bára hafi brotið lög þegar hún tók upp fyllerísröfl þeirra á Klausturbar þann 20. nóvember síðastliðnum. Líklegt þykir að Bára þurfi að gefa skýrslu fyrir dómi á mánudaginn næsta vegna upptökunnar.

Ljóst er að þingmönnunum fjórum er, þrátt fyrir yfirlýsingar um bót og betrun og skýlausa iðrun, ekki hlýtt til Báru þar sem upptökurnar hafa svo sannarlega sett strik í pólitíska reikning þeirra og gert þeim erfiðara um vik að fá framgang í heimi stjórnmálanna.  

En þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bára og Sigmundur Davíð koma á sama tíma í kastljós fjölmiðlanna. Bára Halldórsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson prýddu nefnilega forsíðu áramótablaðs Fréttatímans árið 2013 þar sem einnig var kynnt Edrúblaðið, 30 ára afmælisrit SÁÁ.  

Bára segir frá því í opinskáu viðtali að hún hafi gengið milli lækna og greinst með afar sjaldgæfan gigtarsjúkdóm á sömu forsíðu og Sigmundur Davíð er að mati Fréttatímans maður ársins það ár.

Nú er bara spurning hvort Bára verði valin kona ársins, fimm árum síðar.