Rod Stewart varð í dag elsti karlkyns tónlistarmaðurinn til að ná þeim árangri að eiga plötu í fyrsta sæti á sölulista í Bretlandi. Platan, sem ber titilinn You're In My Heart og kom út í lok nóvember, er sú tíunda sem Stewart nær að koma á topp listans.

Ekki mátti miklu muna fyrir hinn tæplega 75 ára gamla söngvara því aðeins munaði 750 seldum eintökum á plötunni og þeim sem á eftir komu, annars vegar með Robbie Williams og hins vegar hljómsveitinni The Who.

Rod Stewart er aðeins þremur mánuðum eldri en sá sem átti metið fyrir þessa viku en það var bandaríski söngvarinn Paul Simon. Enn á Stewart þó langt í land með að ná elsta kvenkyns tónlistarmanninum til að eiga plötu í fyrsta sæti sölulista. Það ótrúlega met á hún Dame Vera Lynn, sem átti söluhæstu plötuna eina vikuna árið 2014 þegar hún var 97 ára gömul.

Stewart tjáði sig um árangurinn á Twitter þar sem hann nýtti einnig tækifærið til að óska Boris Johnson með árangurinn í nýafstöðnum og sögulegum þingkosningum í Bretlandi. „Ég vil enn einu sinni þakka ykkur, hersveitum aðdáenda minna sem ég mun aldrei taka sem sjálfsögðum hlut. Guð blessi ykkur öll og gleðileg jól,“ sagði hann. „Vel gert Robbie, vel gert Boris og ekki vera sár Pete Townshend!“

Á nýjustu plötu Stewarts kemur hann fram ásamt sinfóníuhljómsveit og má þar finna ýmsar nýjar útgáfur af gömlum slagörum hans á borð við Sailing og I Don't Want to Talk About it.

Frétt BBC um málið.