Banda­ríski auð­kýfingurinn Robert Durst, sem á­kærður er fyrir morð á vin­konu sinni, Susan Ber­man árið 2000, er með krabba­mein og hafa verj­endur hans farið fram á að réttar­höldunum yfir honum verði frestað.

Durst komst í heims­fréttirnar árið 2015 í kjöl­far heimilda­þátta­raðar HBO, The Jinx, sem sagði frá vægast sagt skraut­legri ævi hans. Í þáttunum kom fram að hann hefði verið bendlaður við þrjú morð en í öll skiptin komist hjá sak­fellingu.

Durst var dæmdur í sjö ára fangelsi í New Or­leans árið 2016 fyrir vopna­laga­brot en á sama tíma beið hans á­kæra í Kali­forníu vegna morðsins á Susan sem fannst látin á heimili sínu í Los Angeles árið 2000.

Réttar­höldin í morð­málinu eiga að hefjast á mánu­dag en vegna krabba­meinsins vilja lög­fræðingar hans að réttar­höldunum verði frestað. Durst, sem er 78 ára, er með þvag­blöðru­krabba­mein og hefur heilsu hans hrakað veru­lega síðustu mánuði, að því er fram kemur í frétt CNN. Durst hefur ekki þegið meðferð við meininu.

Réttar­höldin hófust upp­haf­lega í mars í fyrra en þeim var frestað vegna kórónu­veirufar­aldursins. Hann er sagður hafa myrt Susan þar sem hún bjó yfir upp­lýsingum um hvarf fyrr­verandi eigin­konu Roberts, Kathie Durst, árið 1982. Fannst Susan látin ör­fáum dögum áður en lög­regla hugðist ræða við hana um málið.