Þóra er í doktorsnámi við Newcastle-háskóla þar sem hún hefur verið að þróa eins konar steypu úr bakteríum.

„Doktorsverkefnið mitt snýst um lífsteinefnavæðingu. Í stuttu máli þá eru til ákveðnar bakteríur sem geta búið til kristal og ég nota hann og blanda við sand til að mynda efni sem er svipað sandsteini,“ útskýrir Þóra.

„Hugmyndin að bioflísunum, sem við Brynja stefnum á að þróa, er byggð á þessu efni.“

Brynja vinnur við innanhússhönnun og hefur mikið verið að velta fyrir sér því efni sem notað er á heimilum fólks.

„Það skiptir svo miklu máli hvaða efni eru notuð. Það er notað mjög mikið af eiturefnum í vörum fyrir heimili. Þau geta valdið alls kyns sjúkdómum, eru ósjálfbær og geta valdið skaða í vistkerfinu. Ég hef verið að vinna í þróun á lifandi byggingu í eitt og hálft ár og tengi bioflísarnar við það verkefni,“ útskýrir Brynja.

„Ég komst í tengsl við Þóru í gegnum Fablab og við ákváðum að vinna saman.“

Nota auðlind sem vex

Bioflísarnar sem Brynja og Þóra eru að þróa eru hugsaðar til að nota innanhúss en þær segja að það sé samt örugglega hægt að þróa efnið svo hægt sé að nota þær utanhúss.

„Efnið sem við erum að nota er endurnýjanleg auðlind. Bakteríurnar fjölga sér hratt, við erum að nota sambland af bakteríum og næringarefnum til að mynda flísarnar. Þetta er umhverfisvænt ferli í þróun á vörum,“ segir Þóra.

„Það er að verða skortur á náttúrulegum auðlindum því það er búið að ganga svo mikið á þær. Það sem mér finnst spennandi við þetta verkefni er að bakterían vex og verður að kalki, sem er bindiefni.

Í stað þess að taka eitthvað, þá erum við að rækta eitthvað. Við erum að nota auðlind sem vex. Þetta efni myndast á svipaðan hátt og kórallar myndast. Mér finnst það svolítið skemmtileg samlíking,“ bætir Brynja við.

Styrkurinn sem þær Brynja og Þóra fengu er hugsaður til að byrja frumrannsókn á þróun flísanna. Þær stefna að því að nota styrkinn í sumar til að vinna að rannsókninni og sækja svo um styrk eftir sumarið fyrir vöruþróun.

„Núna er ég að þróa sýnishorn af öðruvísi aðferðafræði við að byggja upp efnið. Ég er að búa til kubba og sýna hvernig flæðið fer í gegnum sandrými með bakteríum, og hvernig þetta vinnur allt saman svo hægt sé að búa til vörur sem unnt er að nota. Svo ætlum við að reyna að einfalda aðferðina til að hægt sé að framleiða flísarnar á Íslandi,“ segir Þóra.

Þóra Hafdís Arnardóttir og Brynja Þóra Guðnadóttir