„Ég er súper góður. Afmælishelgin var að klárast, þetta var ótrúlega næs. Ég og kærastan mín fórum á Geysi á föstudaginn og svo fór ég í kósíbústað með strákunum daginn eftir,“ segir rappgoðsögnin Aron Can.

„Maður verður að muna að njóta líka,“ segir rapparinn sem hefur verið gríðarlega öflugur í CrossFit undanfarin ár.

„Ég er búinn að vera í CrossFit í næstum þrjú ár. Það er ótrúlega gaman og ég stunda það eða einhvers konar líkamsrækt á hverjum degi,“ segir Aron.

Hann segir það ekki síst koma sér vel á dimmasta tíma ársins eins og nú.

„Það hjálpar gríðarlega að kíkja í ræktina, fara í sánu og skella sér í kalda pottinn. Maður er búinn að sigra daginn kannski bara klukkan sjö eða átta um morguninn og fer góður út í allt annað.“

Aron segir kófið hafa sett strik í reikninginn hjá sér eins og öðrum tónlistarmönnum en hann hefur nýtt tímann vel. „Þetta er auðvitað orðið þreytt, ég ætla ekki að ljúga því. Eitt gigg hjá mér hefur til dæmis frestast í tæpt ár. En þetta er bara staðan og það er eins og það er.“

Hann hefur nýtt tímann til að semja tónlist og segir að þannig hafi hans nýjasta plata, Andi, líf, hjarta, sál, orðið til.

„Maður var ekki að spila mikið og nýtti tímann í stúdíóinu frekar, sem í þessu tilfelli var frekar næs. Annars hefði maður eytt kvöldunum í að gigga og flakka á milli kannski tveggja, þriggja eða fjögurra staða.“