Í nýjasta þætti hlaðvarpsins Sögur af plötum rýnir Bubbi í plötuna Dögun sem tekin var upp árið 1987. Platan var að hluta til tekin upp á Englandi og segir Bubbi upptökuferlið hafa verið brösugt, meðal annars vegna aukinnar neyslu Tómasar Tómassonar, bassaleikara og upptökustjóra. „Tommi heitinn var ekkert á góðum stað.“ segir Bubbi og lýsir því að ástand Tomma hafi bitnað rosalega á upptökunum. „Við áttum að byrja að vinna á morgnana en það var ekki byrjað fyrr en klukkan tvö.“

Lét sig detta

Síðar í þættinum segir Bubbi frá óhappi sem átti sér stað við tökur á tónlistarmyndbandi við lagið Aldrei fór ég suður. „Ég hafði farið í rjúpu daginn áður ásamt ónefndum vini mínum og ég festist í harðfenni. Hann náði ekki til mín svo ég var pikkfastur með bratta hlíð niður,“ segir Bubbi sem endaði á því að þurfa að láta sig detta. „Ég fer á fleygiferð niður hlíðina og lendi á einhverjum steini en næ að stoppa mig í grjótinu. Þá sprungu rjúpurnar í bakpokanum.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild hér: