Söngkonan ZÖE kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Hún birtist á sjónarsviði okkar Íslendinga fyrst fyrir alvöru þegar hún átti aðallagið í vinsælustu mynd síðasta árs, Lof mér að falla. Margir höfðu orð á því hve magnað það væri að íslensk mynd hefði færi á því að fá einhverja heimsþekkta söngkonu úti í heimi til að semja svona stórbrotið lag fyrir myndina, en hún býr hér og rekur sitt eigið stúdíó úti á Granda.

Neitaði að drukkna í vonleysinu

ZÖE heitir fullu nafni Zoe Ruth Erwin og er frá Los Angeles. Hún er miklum hæfileikum gædd, hljóðverkfræðingur, tónlistarframleiðandi og lagahöfundur, fyrir utan að syngja og spila tónlist.

Hún semur og framleiðir tónlist með þó nokkrum íslenskum tónlistarmönnum og söngvurum í stúdíóinu sínu úti á Granda.

„Árið 2015 var mér mjög erfitt. Ég missti föður minn eftir átta ára erfiða baráttu hans við krabbamein. Örfáum mánuðum seinna slitnaði upp úr sambandi mínu og kærasta míns sem var með mér í hljómsveit á þeim tíma,“ segir Zoe.

Í staðinn fyrir að leggja hendur í skaut og drukkna í vonleysinu ákvað Zoe að ögra sjálfri sér og stuða sig út úr sorginni.

„Ég fékk þá hugdettu að ferðast eitthvert alveg ein, til einhvers staðar sem ég hefði aldrei hugsað hingað til um að heimsækja. Planið var að læsa að mér og skrifa plötu á þremur vikum. Vinur minn sem ég hafði starfað með í tónlistinni stakk upp á Íslandi, og að ég skyldi mæla mér mót við þann sem mixaði tónlistina sem við höfðum gert saman, sem var Addi 800.“

Sálufélaga ríkari

Nokkrum vikum síðar var Zoe mætt til Reykjavíkur og kolféll fyrir landi og náttúru. Hún sker sig þó úr frá hinum klassíska aðflutta að einu leyti.

„Ég held mikið upp á myrkrið og íslenska veturinn,“ segir Zoe.

Eftir nokkurra daga dvöl hitti hún Adda, og varð þeim báðum fljótt ljóst að þeirra á milli ríktu einhver ólýsanleg tengsl. Ekki bara rómantísk.

„Við fundum strax fyrir gagnkvæmri virðingu þegar það kemur að listinni sem við vorum að skapa. Einhver óútskýranleg og órjúfanleg tengsl. Þriggja vikna dvöl breyttist í þrjá mánuði, og að henni lokinni stóð ég uppi með ekki einungis 30 ný lög heldur sálufélaga, ástina í lífi mínu.“

Tók upp lagið í leyni

Zoe kynntist Baldvini Z leikstjóra í gegnum kærasta sinn, en Addi sá um hljóðhönnunina fyrir Lof mér að falla.

„Baldvin setti lagið Ain’t gonna rain anymore í enda myndarinnar en það var flókið ferli að fá leyfi fyrir að nota upprunalegu upptökurnar svo að hann var að leita að öðrum möguleikum. Án þess að segja honum tók ég upp mína útgáfu af laginu og spilaði fyrir hann. Honum þótti það í það minnsta nógu bærilegt til að hann notaði það í myndina,“ segi Zoe hlæjandi.

Zoe samdi einnig lagið Let me fall, sérstaklega fyrir myndina, í kjölfar þess að hún sá grófa klippingu af myndinni.

„Það er listrænn skilningur á milli okkar Baldvins sem gerði samstarfið spennandi, skemmtilegt og óútreiknanlegt. Þegar ég sagði honum frá nýja laginu mínu, Summer funeral, stökk hann nánast á lestina með alveg ótrúlega frábærar hugmyndir fyrir myndbandið. Málið með Baldvin er að listræn sýn hans er svo mögnuð og stundum ögrandi að jafnvel lélegu hugmyndirnar hans eru góðar. Þess vegna segi ég nánast já við þeim öllum.“

Gjöfult og gott samstarf

Hún segir að ýmsar hugmyndir hafi verið í gangi og að góð ástæða sé fyrir því hvernig myndbandið small svo saman í lokin.

„Við ákváðum að mæta bara á tökustað með búnaðinn og byrja að taka upp, láta innblásturinn og upplifunina leiða okkur. Þegar leið á tökurnar, þá einhvern veginn birtist andinn og sagan af sjálfu sér. Ég held að ástæðan fyrir því hve gjöfult og farsælt samstarf okkar hefur verið sé að hann nær að sjá fyrir sér tónlistina mína, og ég að semja tónlist við það sem hann sér fyrir sér.“

Myndbandið við lagið Summer funeral eftir ZÖE í leikstjórn Baldvins Z er hægt að nálgast á YouTube í dag.