Orðskjálfti eru nýstofnuð samtök sem standa fyrir ritsmiðjum fyrir ungt fólk. Sunna Dís Másdóttir, Lára Aðalsteinsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Þóra Hjörleifsdóttir eru í forsvari fyrir samtökin.

„Þessi nýju samtök eru sprottin upp úr dönsku samtökunum Ordskælv sem við höfum allar unnið með áður. Árið 2016 vorum við með norræna smiðju þar sem ungmenni skrifuðu um reynslu sína af því að alast upp við fátækt. Afraksturinn var bók með sögum og frásögnum þessa unga fólks. Allt frá því hefur mig langað til að halda áfram með þessa vinnu og nú er það loksins að gerast,“ segir Sunna Dís Másdóttir.

„Í sumar ætlum við að vera með tvær smiðjur sem eru báðar í samstarfi við norrænu systursamtökin á hinum Norðurlöndunum. Annað verkefnið er ljóðaritstjórnarsmiðja. Við erum að leita að unglingum og ungu fólki sem elskar ljóð. Unnið verður saman í hóp og valin 20-25 ljóð sem þátttakendum finnst vera það besta í ljóðlist sem skrifuð var á Íslandi í fyrra.“

Sunna Dís segir að ekki verði einungis tekið mið af útgefnum ljóðabókum síðasta árs. „Við ætlum að víkka þetta svolítið út, þannig að ef fólk á ljóð frá því í fyrra sem hafa birst í tímaritum, skólablöðum eða á netinu er meira en velkomið að senda okkur þau.“

Unnið verður á sama hátt í hinum löndunum og í lok árs kemur út bók sem geymir, að mati ungmennanna, það besta sem kom út af norrænni ljóðlist árið 2020.

Tekist á við Covid

Hitt verkefnið fer af stað í ágúst. „Það er ritsmiðja þar sem ungt fólk kafar ofan í lífsreynslu sína síðastliðið ár og hvernig það var að takast á við COVID. Þetta síðasta ár hefur markað marga og unga fólkið okkar hefur svo sannarlega fundið mikið fyrir afleiðingum samkomutakmarkana og annarra hafta. Auk þess að leiðbeina þátttakendum í skrifum reynum við líka að veita þeim innsýn í það hvernig er að vera skrifandi manneskja og fáum rithöfunda í heimsókn til okkar og fleira skemmtilegt,“ segir Sunna Dís.

Hún segist vonast til að Orðskjálfti vaxi og dafni. „Það sem var svo skemmtilegt í sambandi við norræna verkefnið árið 2016 var að sjá hvernig ungu höfundarnir sem tóku þátt í því hafa síðan haldið áfram að skrifa eða eru með önnur verkefni. Draumur okkar sem stöndum að Orðskjálfta er að þátttakendur komi seinna til okkar með tillögur um smiðjur sem þá langar til að stýra, eða önnur verkefni sem við gætum stutt þau í svo að þetta skjóti rótum og haldi áfram að stækka. Einhver hluti þess sem Orðskjálfti mun gera verður eflaust bara í íslensku samhengi og svo er þessi möguleiki alltaf til staðar að vinna að stærri verkefnum með norrænum systursamtökum.“

Ungmenni sem hafa áhuga á að taka þátt í smiðjunum geta haft samband á ordskjalfti@gmail.com.

Margradda skáldsaga

Í haust kemur út skáldsaga um konur sem Sunna Dís hefur unnið með hópnum Svikaskáld sem hún er hluti af, en alls eru sex konur í hópnum. Spurð hvort það hafi verið flókið að skrifa skáldsögu í samvinnu segir hún. „Skáldsagan býður upp á svo margt. Sumir höfundar sem vinna saman setjast niður hlið við hlið og skrifa. Við fórum ekki þá leið. Við erum að vinna með margradda skáldsögu þar sem hver og ein skrifar eina rödd. Þegar við þróuðum raddirnar vorum við saman, í stöðugu samtali og samvinnu, þannig að þræðirnir mynduðust mjög náttúrulega í ferlinu.“ ■