Ragnar Jónasson, lögfræðingur og metsölurithöfundur, og eiginkona hans, María Margrét Jóhannsdóttir blaðamaður, hafa fest kaup á ævintýralegu einbýlishúsi við Sólvallagötu. Þau eru ekki að flytja langt en þau settu hæð sína á Sólvallagötu á sölu í september.
María Margrét greinir frá þessu á Facebook.
Húsið er ævintýralegt en það minnir einna helst á lítinn kastala. Það var sett á sölu í lok ágúst en fasteignmat hússins var tæpar 130 milljónir króna. Kjarneplið ehf. sem er í eigu Sturlu Míós Þórissonar var áður eigandi hússins.
Ragnar hefur notið mikillar velgengni sem rithöfundur en bækur hans hafa selst í um tveimur milljónum eintaka á heimsvísu. Þær hafa verið gefnar út í um það bil 40 löndum á 27 tungumálum. Auk þess hefur Ragnar unnið til fjölda verðlauna en Mistur var valin glæpasaga ársins í Bretlandi (e. Mystery Book of the Year) árið 2020.