Í júlímánuði verða íslenskar bókmenntir í forgrunni á bókmenntahátíðinni Měsíc autorského čtení eða Authors’ Reading Month, sem fram fer í fjórum borgum í Tékklandi og Slóvakíu.

Um 30 íslenskir höfundar taka þátt og lesa úr verkum sínum í borgunum fjórum: Brno, Bratislava, Ostrava og Košice. Á hverjum degi í júlí býðst íbúum þessara borga og öðrum gestum að kynnast íslenskum höfundum ásamt höfundum frá Tékklandi og Slóvakíu.

Hátíðin er ein sú stærsta sem haldin er í þessum hluta Evrópu og hefur heiðursþátttaka Íslands nú þegar vakið mikla athygli í fjölmiðlum ytra.