Ásmundarsalur stendur að tveimur Bókakokteilum í salnum í samvinnu við rithöfundana Ragnar Jónasson og Sverri Norland. Fyrra kokteilkvöldið fór fram í gær en það seinna verður haldið í kvöld klukkan 20.00. Þar mun gestum bjóðast tækifæri til að smakka eftirlætiskokteil uppáhaldshöfundar síns og spjalla við höfundinn um leið.
Tólf rithöfundar taka þátt í dagskránni og hafa valið sér eftirlætis drykk og verða sex þeirra á staðnum til að skála við lesendur sína hvort kvöld. Á staðnum verður barþjónninn Marshall Williams frá Reykjavík Roasters sem blandar drykki höfundanna. Glæsilegur nýr kokteilseðill hannaður af Lilju Cardew verður til sýnis. Þá munu listakonurnar Salka Rósinkranz og Tóta Kolbeins einnig prenta bókamerki á staðnum sem eru tilvalin til að læða inn í prentaðar jólagjafir.
Bækur höfundanna verða auk þess til sölu og hægt að fá áritanir. Að sögn skipuleggjenda er þó aðalatriðið einfaldlega að hittast og hafa gaman, skiptast á hugmyndum og spjalla um bækur yfir góðum drykk. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir, höfundar jafnt sem lesendur.
Rithöfundarnir sem koma fram á Bókakokteil í Ásmundarsal í kvöld eru Jón Kalman Stefánsson, Katrín Jakobsdóttir, María Elísabet Bragadóttir, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Sverrir Norland og Pedro Gunnlaugur Garcia.