Tónlist

Vínartónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands

★★1/2

Verk eftir Strauss yngri, Lehár, Bonis, Zeller, Tsjajkovskíj Sieczynski, Dostal og Beach.

Eldborg í Hörpu

Fimmtudaginn 9. janúar

Stjórnandi: Bjarni Frímann Bjarnason

Einsöngvarar: Jóna G. Kolbrúnardóttir og Garðar Thór Cortes.

Dansarar: Þorkell Jónsson, Denise Margrét Yaghi, Gylfi Már Hrafnsson, María Tinna Hauksdóttir, Guðjón Erik Óskarsson og Eva Karen Ólafsdóttir.

Sumir karlar leita í Frímúrararegluna til að flýja konurnar, eins og einn meðlimur reglunnar sagði mér einu sinni. Svipuð stemning ríkti lengi, og gerir eiginlega enn þá, í Vínarfílharmóníunni, sinfóníuhljómsveit sem er næstum tveggja alda gömul. Þar voru konur lengst af bannaðar. Þegar hljómsveitin hugðist fara í tónleikaferðalag um Bandaríkin árið 1997 var gerð könnun á viðhorfi þar vestra til hljómsveitarinnar. Í ljós kom að eitthvað myndi ímynd sveitarinnar hressast ef konur fengju að vera í henni. Einn kvenkyns hörpuleikari var ráðinn í framhaldinu. Ástandið hefur víst aðeins lagast síðan þá.

Sama er uppi á teningnum hvað varðar Vínartónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Konur í Vín í gamla daga máttu einfaldlega ekki semja tónlist. Þetta hefur endurspeglast í efnisskránum, þar til nú. Í ár voru verk eftir tvö kventónskáld, Mélanie Helene Bonis og Amy Beach. Hvorugar þeirra voru samt austurrískar; sú fyrrnefnda var frönsk en hin bandarísk.

Tilgerðarlegur hátíðleiki

Lögin þeirra á tónleikunum voru því miður fremur rislítil, en það átti svo sem líka við um flest annað á efnisskránni. Að einhverju leyti má skrifa það á hljómsveitarstjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar, sem var heldur þunglamaleg.

Einhvers konar tilgerðarlegur hátíðleiki einkenndi Keisaravalsinn og Dónárvalsinn eftir Jóhann Strauss. Meira að segja valsinn úr óperunni Jévgení Ónegín eftir Tsjajkovskíj var hálf aumingjalegur. Hvar var gleðin og hápunktarnir sem eru svo rafmagnaðir þegar vel tekst til?

Sumt var gott

Helst var forleikurinn úr Leðurblökunni eftir Strauss sannfærandi. Hann var snarpur og tilþrifaríkur, gæddur viðeigandi fjöri og gáska.

Einsöngurinn var í höndunum á Jónu G. Kolbrúnardóttur og Garðari Thór Cortes. Jóna söng prýðilega, röddin var tær og hljómmikil, túlkunin þrungin ástríðu og innileika. Garðar var heldur lengur að komast í gang. Það var eiginlega ekki fyrr en í dúettinum úr Sígaunabaróninum eftir títtnefndan Strauss að hann náði almennilega í gegn. Kannski hentar honum ekki akkúrat þessi tegund tónlistar.

Flottir dansarar

Nokkrir dansarar glöddu augað á tónleikunum. Það var eitthvað við að horfa á fimlega dansaða valsana, fólkið (eitt parið samanstóð af börnum) bókstaflega sveif um dansgólfið. Því miður var dansað við allt of fá lög. Dansinn gaf margþvældri tónlistinni líf og hefði því svo sannarlega þurft meira af honum hér.

Auk alls þessa hafa Vínartónleikarnir oft verið fyndnari. Stundum hafa áheyrendur oltið um af hlátri. Í samanburðinum núna var stemningin furðu drungaleg; hljómsveitarstjórinn virkaði stressaður og kom ekki upp einum einasta brandara. Fyrir bragðið fékk maður bjánahroll í árlega aukalaginu, hinum ógnarfjöruga Radetsky marsi, þegar áheyrendur klöppuðu í takt. Það var óttalega máttlaust; útkoman var hálf vandræðaleg. Vonandi er þetta ekki slæmur fyrirboði fyrir tónleikaárið fram undan.

Niðurstaða: Vínartónleikar hafa oft verið skemmtilegri. Söngurinn var misjafn, hljómsveitarstjórnin þung og ekki nógu mikill dans.