Mezzosópransöngkonan Arnheiður Eiríksdóttir kemur fram í nýrri uppfærslu Íslensku óperunnar á hinu þekkta verki Madama Butterfly eftir Giacomo Puccini sem frumsýnt verður í Eldborg á laugardag.
„Þetta er falleg saga sem er byggð á ævisögu konu sem vann sem geisja í Japan. Þetta er saga Cio-Cio-San eða Butterfly eins og hún er kölluð. Hennar eina leið út úr vondu ástandi var að vinna sem geisja en það er mjög skýrt í verkinu að það er ekki eftirsóknarvert að vera geisja. Þótt það sé náttúrlega ákveðinn glamúr yfir því, þá er það eitthvað sem hún hræðist að festast aftur í,“ segir Arnheiður.
Sorgleg saga
Við upphaf Madama Butterfly er söguhetjan Cio-Cio-San við það að fara að giftast bandarískum sjóliðsforingja að nafni Pinkerton en sá hefur ekki mikinn áhuga á henni sem manneskju og hefur í hyggju að finna sér ameríska konu.
„Hann er í rauninni bara að giftast henni til þess að fá að sofa hjá henni. En hún tekur því ekki þannig, hún afneitar trú sinni til að þóknast honum og er í kjölfarið afneitað af fjölskyldu sinni og bíður ein eftir honum í þrjú ár. Ég leik þjónustustúlkuna hennar Suzuki og við erum bara tvær í þessu húsi sem hann er búinn að koma okkur fyrir í,“ segir Arnheiður.
Þegar Pinkerton fer frá Japan er Cio-Cio-San barnshafandi og bíður hún í þrjú ár eftir því að hann snúi aftur og sæki hana og son þeirra, sem hann veit ekki af, og fari með þau til Bandaríkjanna. Hann snýr aftur til Japan að þremur árum liðnum með bandarískri eiginkonu sinni sem hefur samþykkt að ala upp soninn og á einu andartaki hrynur heimsmynd Cio-Cio-San.
„Þetta er mjög sorgleg saga. Hún bíður og bíður í þrjú ár og heldur alltaf að hann sé að fara að koma. Það er annar ríkur maður í bænum sem vill giftast henni en hún segist vera gift og vill það ekki. Á sama tíma eru peningarnir búnir og allt frekar ömurlegt,“ segir Arnheiður.

Puccini sem kvikmyndatónskáld
Ertu hrifin af óperum Puccini?
„Já, ég er rosa hrifin af þessum stíl þar sem óperan er í rauninni leikrit í eðlilegu formi og söngvarinn er bara að tala. Ef maður ber það saman við óperur eins og eftir Mozart þá er maður að syngja lög og svo fer sagan fram inn á milli, svipað og í söngleik. Puccini er miklu meira þannig að tónlistin fylgir með allan tímann og undirstrikar annaðhvort tilfinningarnar í textanum eða atburðarásina á sviðinu. Ég held að ef Puccini hefði verið aðeins seinna að skrifa þá hefði hann orðið kvikmyndatónskáld.“
Kóreska sópransöngkonan Hye Youn Lee syngur hlutverk Cio-Cio-San í uppfærslu Íslensku óperunnar en hún hefur sérhæft sig í að syngja það hlutverk. Með hlutverk Pinkerton fer tenórinn Egill Árni Pálsson.
„Hún er algjört yndi hún Hye Youn, yndisleg að vinna með og rosalega þægileg. Rosa fagmannleg og alveg klikkaðslega flott rödd,“ segir Arnheiður spurð um hvernig sé að syngja með Hye Youn. „Þetta er í rauninni hennar sérgrein, það sem hún gerir helst er að syngja þetta hlutverk úti um allan heim og hún er búin að gera það í mörgum, mörgum uppfærslum.“
Tilnefnd til virtra verðlauna
Arnheiður hefur vakið athygli í evrópska óperuheiminum en hún er fastráðin við þjóðaróperuna í Prag og hefur starfað víðs vegar um álfuna, þar á meðal í Þýskalandi og Austurríki.
„Fyrir það var ég í Köln í Þýskalandi í svokölluðu óperustúdíói sem er svona millibil á milli þess að klára nám og þess að vera alveg atvinnusöngvari. Þar fékk maður aðeins meiri hjálp við undirbúning á sýningum, en ég var samt bara að syngja í venjulegum uppfærslum. Núna í Prag er ég með alveg æðislegan samning þar sem ég er að fá mjög bitastæð hlutverk,“ segir hún.
Þá var Arnheiður nýlega tilnefnd til tékknesku gagnrýnendaverðlaunanna sem leikkona ársins fyrir hlutverk sitt sem Octavian í Rósariddaranum eftir Strauss.
„Ég var í síðustu viku tilnefnd sem leikkona ársins í Tékklandi. Ekki söngkona heldur leikkona. Það er mjög langt síðan það var óperusöngkona í þeim flokki, svo mér finnst það alveg sérstakur heiður.“ segir Arnheiður.
Ég var í síðustu viku tilnefnd sem leikkona ársins í Tékklandi. Ekki söngkona heldur leikkona. Það er mjög langt síðan það var óperusöngkona í þeim flokki, svo mér finnst það alveg sérstakur heiður.
Gifti sig í sumar
Spurð um hvernig óperuheimurinn í Tékklandi sé segir Arnheiður hann vera mun stærri en hér heima, enda hefur hún verið búsett í Evrópu undanfarin tólf ár.
„Það eru mjög mörg óperuhús í Tékklandi og svo er þetta ekki jafn einangrað og Ísland er oft. Þetta er samtvinnað og þó að ég sé fastráðin í Prag þá er ég líka að vinna í Þýskalandi og Austurríki og tek að mér verkefni þar,“ segir hún.
Er það ekki algjör draumur að geta ferðast um Evrópu og sungið í alls konar óperuhúsum?
„Jú, það er ótrúlega gaman. En það er náttúrlega líka smá erfitt að komast sjaldan heim til Íslands. En staðreyndin núna er að þú getur ekki unnið við þetta heima, það er engin full staða sem óperusöngvari á Íslandi, bara verkefni.“
Þá bætir Arnheiður því við að það hjálpi með heimþrána að hún er gift tékkneskum manni.
„Eins og staðan er núna þá er ég bara mjög sátt. Ég gifti mig í sumar tékkneskum manni sem náttúrlega hjálpar mikið með heimþrána. Þá á ég smá heima þar, er með rætur og fjölskyldu.“