Lífið

Mynd­band: Risa­köngu­ló hrellir fjöl­­­skyldu í Kópa­vogi

Köngu­ló af gerðinni Era­ti­g­ena at­ri­ca olli nokkru fjaðra­foki þegar hún dúkkaði upp á stofu­gólfi hjá fjöl­skyldu í Kópa­vogi í gær. Tegundin telst risa­stór á ís­lenskan mæli­kvarða og hefst nú við í plast­boxi og bíður þess að fá að éta.

Jón Kristinn vaknaði upp við neyðaróp eiginkonu sinnar og var illa brugðið þegar hann mætti loðinni risakönguló á stofugólfinu. Myndir/Jón Kristinn

Kópavogsbúinn Jón Kristinn ætlaði varla að trúa sínum eigin augum þegar hann rakst á myndarlega og loðna könguló á stofugólfinu í gær. Vágestur þessi reyndist þó ekki jafn skæður og ætla mátti í fyrstu, er þekkt hér á landi og kallast skemmukönguló, eða Eratigena atrica.

„Konan mín sá hana fyrst og öskraði, fór bara að grenja, enda er hún með köngulóafóbíu,“ segir Jón Kristinn sem varð fyrir þeirri óskemmtilegu lífreynslu að fá risakönguló í heimsókn í gærkvöld.

„Ég var frekar pirraður yfir því að það væri verið að vekja mig út af einhverri könguló og skildi ekkert í þessu. Ég hélt bara að þetta væri einhver venjuleg könguló og fór fram og sá hana bara þarna á miðju stofugólfinu, helvíti stóra og loðna,“ segir Jón Kristinn sem hélt þó ró sinni fangaði kvikindið og brá á hana málbandi.

Ófrýnileg er hún en sauðmeinlaus þó, skemmuköngulóin sem gerði Jóni Kristni rúmrusk í gærkvöld. Myndir/Jón Kristinn

Sauðmeinlaus en eldsnögg

Áttfætlan reyndist vera 5 sentimetra löng og ef til vill ekkert ferlíki á heimsmælikvarða en á vef Náttúrufræðistofnunnar Íslands er hún þó sögð „risastór könguló á okkar mælikvarða. Húsaköngulóin alkunna (Tegenaria domestica) er rétt hálfdrættingur á við hana. Það gefur því auga leið að fáir fagna þessum nýja landnema, en það skal ítrekað að okkur er hún sauðmeinlaus.  Hún er dökkbrún á lit, með ljósbrúnna mynstri bæði á bol og fótum, lappalöng og viðbragðsfljót.“

Jón Kristinn staðfestir að engu er logið um viðbragðsflýtinn. „Ég bara trúði þessu ekki og datt helst í hug að þetta væri bara eitthvert leikfang en þegar ég kom að henni hljóp hún alveg þvílíkt hratt undir sófa,“ segir Jón Kristinn sem fangaði köngulóna með hefðbundnum aðferðum.

„Ég veiddi hana bara fyrst í glas, setti svo pappír undir glasið og setti hana í tupperware-box og lagði svo boxið ofan á málband.“ Köngulóin er enn í boxinu og Jón Kristinn segist ekki alveg vita hvað hann muni gera við hana. Hann segir átta ára son sinn mjög áhugasaman um þennan óboðna gest og útilokar ekki að köngulóin verði gæludýr á heimilinu.

„Ég veit ekki hvað ég geri en þarf að fara að gefa henni að éta. Ég gúgglaði þetta aðeins og fólk er alveg með þetta sem gæludýr og er að gefa þessu alls konar dót að éta.“

Posted by Jón Kristinn on Wednesday, October 17, 2018

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Lífið

Jón Viðar dásamar Ófærð: „Hvað vill fólk meira?“

Heimilið

Fá hjón verja jafn miklum tíma saman

Tíska

Hildur Yeoman í Hong Kong

Auglýsing

Nýjast

„Ég er mikið kvikindi“

Fékk stað­gengil í nýjustu seríu Game of Thrones

Grænkerar í sjálfkeyrandi bílum

„Hæfileg óreiða finnst mér heilbrigð“

Komnar með bakteríuna

Hef sofnað á ýmsum skrýtnum stöðum

Auglýsing