Janúar 1990:  Stærsti einkabanki landsins leit dagsins ljós þegar Íslandsbanki varð til við sameiningu Alþýðubanka, Iðnaðarbanka, Útvegsbanka og Verzlunarbanka.

28. ágúst 1998: Ríkisstjórnin samþykkir stefnumótun um sölu hlutafjár í bönkunum þremur.

Nóvember 1999: Fjárfestingabanki atvinnulífsins seldur til hóps sem samanstóð af 26 lífeyrissjóðum, fyrirtækjum og einstaklingum fyrir 9,7 milljarða króna.

Desember 1999: Sala á 15 prósenta hlut ríkissjóðs í Landsbanki Íslands og Búnaðarbankanum. Alls skráðu 55 þúsund manns sig fyrir hlut í bönkunum og söluandvirði nam 5,5 milljörðum króna. Eftirstandandi hlutur ríkisins í bönkunum var um 72 prósent eftir söluna.

Júní 2000: Íslandsbanki og Fjárfestingabanki atvinnulífsins sameinast

18. maí 2001: Alþingi samþykkir frumvarp viðskiptaráðherra sem fól í sér heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Landsbanka Íslands og Búnaðarbankanum að fullu.

31. desember 2002: Undirritun kaupsamningum um hlutafé í Landsbanka Íslands milli íslenska ríkisins og Samson eignarhaldsfélags ehf. sem þeir Björgólfur Guðmundsson, Björgólfur Thor Björgólfsson og Magnús Þorsteinsson stóðu að baki. Hluturinn nam 45,8 prósentum og kaupverð í heild var rúmar 139 milljónir Bandaríkjadala.

16. janúar 2003: Undirritun kaupsamnings um hlutafé í Búnaðarbankanum milli íslenska ríkisins og S-hópsins en fyrir hópnum fóru Ólafur Ólafsson og Finnur Ingólfsson. 45,8 prósenta hlutur seldur á 11,9 milljarða króna.

September 2004: Íslandsbanki hefur sókn á erlenda markaði árið 2004 með kaupum á Kredittbanken í Noregi. Opnaðar skrifstofur eða útibú í London, Kaupmannahöfn og á fleiri stöðum.

September 2004: Kaupþing kaupir danska bankann FIH en með kaupunum tvöfaldast efnahagsreikingur íslenska bankans.

Ágúst 2004: Bankarnir fara í samkeppni við Íbúðalánasjóð um íbúðalán. ÍLS slakar á lánaskilyrðum til að mæta aukinni samkeppni og yfirvöld hækka veðhlutfall lána Íbúðalánasjóðs upp í 90 prósent.

Janúar 2005: Landsbanki Íslands opnar útibú í London og setur Lárus Welding sem útibússtjóra.

Apríl 2005: Kaupþing kaupir breska fjármálafyrirtækið Singer & Friedlander.

Mars 2005: Íslandsbanki breytir nafni sínu í Glitnir.

Vorið 2006: Lausafjárskortur gengur nærri bönkunum en þetta tímabil hefur almennt gengið undir nafninu „mini-krísan“. Erlendir fjármálagreinendur og fjölmiðlar beina augum sínum að íslensku bönkunum og vekja athygli á veikri stöðu þeirra.

Október 2006: Landsbanki Íslands hleypir netbankanum Icesave af stokkunum í Bretlandi í því skyni að fá erlend innlán.

Apríl 2007: FL Group nær undirtökum í Glitni með kaupum á hlut Milestone í bankanum. Þannig var athafnamaðurinn Jón Ásgeir Jóhannesson orðinn einn af aðaleigendum Glitnis.

Desember 2007: Skammtímaskuldir þjóðarinnar orðnar um fimmtánfaldur gjaldeyrisforði Seðlabankans en stærstur hluti skammtímaskuldanna var vegna fjármögnunar bankanna. Erlend innlán bankanna þriggja voru einnig um áttfaldur gjaldeyrisforðinn.

Janúar 2008: Kaupþing fellur frá kaupum á hollenska bankanum NIBC upp á þrjá milljarða evra en viðskiptin hefðu á þeim tíma orðið þau stærstu í Íslandssögunni. Ástæðan var sögð óróleiki á fjármálamörkuðum.

15. september 2008: Alþjóðlegi fjárfestingabankinn Lehman Brothers verður gjaldþrota. Þetta er enn þann dag í dag stærsta gjaldþrot sögunnar.

25. september 2008: Glitnir óskar eftir 600 milljóna evra neyðarláni frá Seðlabankanum til þess að standa skil af lánum en því er hafnað.

29. september 2008: Ríkið tekur yfir 75 prósenta hlut í Glitni og leggur til hlutafjárframlag að jafnvirði 600 milljóna evra.

3. október 2008: Gylfi Magnússon, dósent í hagfræði Háskóla Íslands, segir að bankarnir séu tæknilega gjaldþrota í útvarpsviðtali. Áhlaup á bankana hefst og myndar örtraðir í bankaútibúum.

4.-5. október 2008: Fjöldi funda haldinn á vegum ríkisstjórnar og forsvarsmanna bankanna. Tillögur um yfirtöku Kaupþings á Glitni og flýtimeðferð til að koma Icesave í breskt dótturfélag lagðar fram.

6. október 2008: Geir H. Haarde forsætisráðherra ávarp þjóðina í sjónvarpsútsendingu. Í kjölfarið er kynnt frumvarp til neyðarlaga sem gefur Fjármálaeftirlitinu fær víðtækar heimildir til inngripa í fjármálastofnanir.

7. október 2008: Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Landsbanka Íslands á grundvelli neyðarlaganna. Bretar beita hryðjuverkalögum gegn bankanum eftir samtal þáverandi fjármálaráðherra Alistair Darling Árna Mathiesen.

8. október 2008: Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Glitnis á grundvelli neyðarlaganna.

9. október 2008: Fjármálaeftirlitið tekur yfir rekstur Kaupþings á grundvelli neyðarlaganna. Þar með eru íslensku viðskiptabankarnir allir komnir í hendur yfirvalda.