„Þessi bók á sér langan aðdraganda og það má rekja hana til ársins 1978 þegar Disney-rímur eftir Þórarin Eldjárn komu út,“ segir Skúli Pálsson um bók sína Rímur af stígvélakisu.

„Það að hann skyldi gefa út bók í þessu formi var spennandi því honum tókst að gera eitthvað fyndið og nútímalegt í þessu gamla formi.“

Á síðari árum hefur Skúli verið viðloðandi ýmsa hópa hagyrðinga og fer hann fyrir hópnum Boðnarmiði á Facebook þar sem hann hefur gert tækifærisvísur sem er bara gert að lifa einn dag.

„Mig langaði að fara með list lausavísunnar aðeins lengra því að í gamla daga voru rímur vinsælasta skemmtun Íslendinga en hafa í dag fallið aðeins í gleymsku,“ segir Skúli.

„Mér fannst leiðinlegt að þessi menningarfjársjóður skyldi vera að mestu horfinn úr menningu og minningu Íslands. Þetta er háþróuð og kröfuhörð list.“Heillandi svikahrapparRímurnar í gamla daga sögðu oft sögur sem sóttu efnivið sinn í erlend ævintýri og ákvað Skúli að fylgja þeirri hefð.

Hann segir að Stígvélaði kötturinn hafi heillað sig því hann er algjör svikahrappur.

„Ég hef gaman af bíómyndum um bankaræningja og svikahrappa,“ útskýrir Skúli. Það er gaman að fylgjast með söguhetjum sem plata alla aðra og labba burt með peningana. Stígvélaði kötturinn er persóna sem kemst upp með allt.“

Í útgáfu Skúla af sögunni túlkar hann söguna á sinn eigin hátt og er kötturinn gerður að kvenpersónu. „Eins og sagan er venjulega sögð af Stígvélaða kettinum þá er alltaf svo ótrúlegt að allir hafi trúað honum,“ segir Skúli. „Mín útgáfa er smá túlkun til að útskýra af hverju allir hafi fallið fyrir þessum augljósu lygum.“

Skúli segir að þótt hann sé ekki að leitast eftir bókmenntaverðlaunum taki hann rímurnar samt alvarlega. „Ég er auðvitað aðeins að fíflast en yrki eftir hefðinni með öllum tilheyrandi bragarháttum, skáldamáli og efnistökum.“

Rímur af stígvélakisu hafa fengið góðar viðtökur lesenda og segir Skúli að ef fólki sé skemmt þá sé takmarkinu náð. „Ég er ekki með bein áform um að yrkja fleiri rímur, en ég skora á hagyrðinga að yrkja meira. Þetta listform hefur mikla möguleika.“

Úr mansöng fjórðu rímu

Inni í dal og út við haf
áður ríma skemmtun gaf,
eddulist og orðagnótt
yndi veitti landa drótt.Nú er ríma hædd og hrjáð,
af heimsins tískuliði smáð,
kölluð gömul, leið og ljót
og löngu úrelt sorpudót.Ljóðagyðja, gef þú að
græði rímur heiðursstað:
fremstu hillu í bókabúð,
best þeim unni fljóðin prúð.