„Eygló er mjög góð að elda, enda hefur hún mjög mikinn áhuga á mat. Hún er vandvirk, áhugasöm og dugleg eins og kannski sést helst á hvað hún er að gera fyrir utan vinnutíma, því þá er hún að smíða nýtt kvennaathvarf,“ segir Ólafur Helgi Kristjánsson, matreiðslumeistari og eigandi Brasserí Kársness, en hann hefur verið með Eygló Harðardóttur sem nema hjá sér undanfarin tvö ár.

Ólafur lét gamlan draum rætast um að opna sinn eigin veitingastað og fann húsnæði á Hafnarbrautinni á Kársnesi, þar sem hann eldar ofan í gesti og gangandi.

Eini neminn á staðnum er Eygló Harðardóttir sem var félags- og húsnæðismálaráðherra 2013-2017 og ritari Framsóknarflokksins árið 2009.

„Ég held að við séum búin að mynda margar ríkisstjórnir með persónum og leikendum í eldhúsinu. Það er töluvert um pólitík í eldhúsinu, ég get alveg viðurkennt það,“ segir Ólafur.

Eygló, Ólafur og Sólveig standa vaktina á Brasserí Kársnes.
fréttablaðið/eyþór

Eygló byrjaði sem nemi hjá Ólafi þegar hann stýrði Hótel Sögu og flakkaði á milli Mímis, Súlnasalar og hins goðsagnakennda Grills. Þegar hann opnaði svo Brasserí fékk hún nemasamning, en fyrir utan að vera að elda er hún að reisa nýtt kvennaathvarf.

„Hún fer bara úr smíðagallanum og beint í kokkagallann. Hún er ótrúlega mögnuð,“ segir Ólafur, en staðurinn er sannkallaður fjölskyldustaður – því eiginkona hans, Sólveig Júlíana Guðmundsdóttir, og tvö börn þeirra, vinna einnig á staðnum.

„Sólveig er límið í þessu því ég er auðvitað bara kokkavitleysingur. Án hennar væri þetta allt komið í vitleysu. Ég held að við séum gott teymi og það er minna mál en ég hélt að vinna með Sólveigu. Svo eru krakkarnir að vaska upp, þannig að samverustundunum hefur fjölgað töluvert eftir að ég opnaði,“ segir Ólafur.