Ríkey Rán Hallvarðsdóttir sat hugsi í bílnum sínum eftir erfiða vakt í vinnunni í gær og velti fyrir sér örlítilli setningu sem viðskiptavinur sagði við hana fyrr um kvöldið.
„Fyrir svona klukkutíma kom kona að afgreiðsluborðinu og sagði: „Eigðu gott kvöld og takk fyrir að vinna!“ Ég vissi ekki hvað ég átti að segja þar sem ég hef ekki heyrt þetta sagt við mig í lengri tíma. Svo ég sagði ekkert, ég bara brosti og kinkaði kolli. Ég var orðlaus yfir þessari einföldu setningu. Hún yljaði mér um hjartarætur,“ skrifaði Ríkey á síðuna Góða systir í gærkvöldi.
Mikilvægt að hrósa hvoru öðru
Ríkey vinnur við afgreiðslu í Krambúðinni í innri Njarðvík og hún segir það sjálfsagt að þeir sem geti unnið og aðstoðað aðra geri það á þessum krefjandi tímum.
„Við erum að gera okkar allra, allra besta en það gerði mitt kvöld svo miklu betra að fá að heyra einhvern segja þetta við mig,“ segir hún.
Ríkey segir það mikilvægt að hrósa hvoru öðru á krefjandi tímum, það hafi mikið að segja fyrir starfsmenn að viðskiptavinir hrósi og séu þolinmóðir.
Aðspurð segist henni í raun ekki líða neitt öðruvísi í vinnunni en áður. Hún sinni sínu starfi en er meira meðvituð um annað fólk og hreinlæti.
„Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu en vinnan breytist lítið. Það er meira álag að sjálfsögðu en það er allt í lagi. Við gerum okkar besta við að gera gott úr hlutunum,“ segir Ríkey í samtali við Fréttablaðið.
Erum öll mennsk
Hún viðurkennir að upplifa smá hræðslu í vinnunni vegna ástandsins og að vera mögulega í návígi við smitaða einstaklinga en segir starfsfólk gæta ítrustu varúðar öllum stundum.
„En þetta atvik gerði mig algjörlega kjaftstopp. Við fáum auðvitað hrós frá fólki en hún þakkaði mér fyrir að vinna vinnuna mína sem mér hefur alltaf fundist sjálfsagður hlutur. Það er svo gott að fá staðfestingu á því að maður sé að gera gott og að fólki þyki þjónustan góð. Við erum til staðar fyrir fólkið og við viljum að sjálfsögðu að fólk fái góða þjónustu og líði vel þegar þau koma til okkar. Þannig að við gerum það sem við getum til þess að fólk finni fyrir öryggi á þessum erfiðu tímum,“ segir hún.
Ríkey segir setningu konunnar hafa fengið hana til þess að hugsa um hversu mikilvægt það sé að standa saman og að hrósa fólki þegar eitthvað sé vel gert.
„Jafnvel þó það sé „bara“ að vinna vinnuna sína. Sérstaklega á þessum tímum, við erum auðvitað öll mennsk og það sést stundum þegar ég á erfiðan dag. Ég reyni að gera gott úr hlutunum en það getur stundum verið erfitt að fela stressið þegar það er mikið í gangi í einu. Ég reyni alltaf að passa að sýna fólki kurteisi og góðmennsku og ég er svo þakklát fólki sem sýnir því skilning og sýnir okkur þolinmæði af því að við erum öll að reyna okkar besta.“