Rík­ey Rán Hall­varðs­dóttir sat hugsi í bílnum sínum eftir erfiða vakt í vinnunni í gær og velti fyrir sér ör­lítilli setningu sem við­skipta­vinur sagði við hana fyrr um kvöldið.

„Fyrir svona klukku­tíma kom kona að af­greiðslu­borðinu og sagði: „Eigðu gott kvöld og takk fyrir að vinna!“ Ég vissi ekki hvað ég átti að segja þar sem ég hef ekki heyrt þetta sagt við mig í lengri tíma. Svo ég sagði ekkert, ég bara brosti og kinkaði kolli. Ég var orð­laus yfir þessari ein­földu setningu. Hún yljaði mér um hjarta­rætur,“ skrifaði Rík­ey á síðuna Góða systir í gær­kvöldi.

Mikilvægt að hrósa hvoru öðru

Rík­ey vinnur við af­greiðslu í Kram­búðinni í innri Njarð­vík og hún segir það sjálf­sagt að þeir sem geti unnið og að­stoðað aðra geri það á þessum krefjandi tímum.

„Við erum að gera okkar allra, allra besta en það gerði mitt kvöld svo miklu betra að fá að heyra ein­hvern segja þetta við mig,“ segir hún.

Rík­ey segir það mikil­vægt að hrósa hvoru öðru á krefjandi tímum, það hafi mikið að segja fyrir starfs­menn að við­skipta­vinir hrósi og séu þolin­móðir.

Að­spurð segist henni í raun ekki líða neitt öðru­vísi í vinnunni en áður. Hún sinni sínu starfi en er meira með­vituð um annað fólk og hrein­læti.

„Við viljum alls ekki stofna neinum í hættu en vinnan breytist lítið. Það er meira álag að sjálf­sögðu en það er allt í lagi. Við gerum okkar besta við að gera gott úr hlutunum,“ segir Rík­ey í sam­tali við Frétta­blaðið.

Erum öll mennsk

Hún viður­kennir að upp­lifa smá hræðslu í vinnunni vegna á­standsins og að vera mögu­lega í ná­vígi við smitaða ein­stak­linga en segir starfs­fólk gæta ítrustu var­úðar öllum stundum.

„En þetta at­vik gerði mig al­gjör­lega kjaft­stopp. Við fáum auð­vitað hrós frá fólki en hún þakkaði mér fyrir að vinna vinnuna mína sem mér hefur alltaf fundist sjálf­sagður hlutur. Það er svo gott að fá stað­festingu á því að maður sé að gera gott og að fólki þyki þjónustan góð. Við erum til staðar fyrir fólkið og við viljum að sjálf­sögðu að fólk fái góða þjónustu og líði vel þegar þau koma til okkar. Þannig að við gerum það sem við getum til þess að fólk finni fyrir öryggi á þessum erfiðu tímum,“ segir hún.

Rík­ey segir setningu konunnar hafa fengið hana til þess að hugsa um hversu mikil­vægt það sé að standa saman og að hrósa fólki þegar eitt­hvað sé vel gert.

„Jafn­vel þó það sé „bara“ að vinna vinnuna sína. Sér­stak­lega á þessum tímum, við erum auð­vitað öll mennsk og það sést stundum þegar ég á erfiðan dag. Ég reyni að gera gott úr hlutunum en það getur stundum verið erfitt að fela stressið þegar það er mikið í gangi í einu. Ég reyni alltaf að passa að sýna fólki kurteisi og góð­mennsku og ég er svo þakk­lát fólki sem sýnir því skilning og sýnir okkur þolin­mæði af því að við erum öll að reyna okkar besta.“