Kammersveitin Elja og Ung nordisk musik leiða saman hesta sína á tvennum tónleikum 10. og 11. ágúst í Tjarnarbíói. Elja var stofnuð fyrir ári og Björg Brjánsdóttir er meðal stofnenda. „Við í kammersveitinni erum hátt á þriðja tug,“ segir hún. „Flest ólumst við upp saman í tónlistarlífinu, vorum saman í skólum og spiluðum mikið saman. Við erum mörg búin með grunnnám á háskólastigi og sumir líka búnir með meistaranám og okkur fannst vanta vettvang þar sem við gætum komið okkur á framfæri, spilað kammermúsík og skapað spennandi verkefni. Um leið langaði okkur til að kynna þessa tónlist fyrir áheyrendum. Það er til svo mikið af fallegum verkum fyrir minni sveitir. Við höfum líka verið að spila Haydn-sinfóníur sem henta vel litlum hljómsveitum.“

Höldum ótrauð áfram

Elja hélt fyrstu tónleika sína í desember síðastliðnum. „Þá spiluðum við einmitt blöndu af kammerverkum og enn minni verkum og það vakti mikla hrifningu,“ segir Björg. „Enn sem komið er erum við aðallega að vinna á sumrin og um jól þar sem margir í Elju stunda nám erlendis. Við munum halda ótrauð áfram.“

Tónleikarnir þann 10. ágúst eru klukkan 20 í Tjarnarbíói undir yfirskriftinni Brot úr minni. Þar fær sveitin til liðs við sig tvo unga tónsmiði, Jófríði Ákadóttur og Halldór Eldjárn. Halldór hefur samið nýtt verk tileinkað sveitinni sem frumflutt verður á tónleikunum. Jófríður mun ásamt sveitinni flytja nokkur lög sín í nýjum búningi. Auk þessara verka munu hljóðfæraleikarar leika verk eftir Joseph Haydn og Arnold Schönberg.

Unnið með ólíka miðla

Daginn eftir, 11. ágúst, tekur Elja þátt í tónlistarverkefninu Tvístrun sem er haldið á vegum Íslandsdeildar Ung nordisk musik. Ung nordisk musik eru norræn samtök sem standa fyrir tónlistarhátíð ár hvert í einu aðildarlanda þess. Á hverju ári er hópur sjö íslenskra tónskálda hluti af hátíðinni. Í fyrra var hátíðin haldin í Reykjavík en hátíðin er alla jafna haldin á Íslandi á fimm ára fresti. Í ár er hátíðin í Björgvin í Noregi.

Ragnar Árni Ólafsson er meðal þeirra sem eru í forsvari fyrir samtökin hér á landi. „Samtökin eru vettvangur fyrir ung tónskáld sem eru mörg á mjög svipuðu reki og fólkið í Elju. Þessir hópar skarast meira að segja, það eru tónskáld innan okkar raða sem eru líka í Elju. Okkur fannst því upplagt að eiga samstarf við Elju,“ segir Ragnar. „Á tónleikunum þann 11. verða verk eftir þau sjö íslensku tónskáld sem verða á hátíðinni í Bergen og einnig tvö önnur verk sem voru valin í umsóknarferli um síðustu áramót.“ Höfundar verkanna eru Bára Gísladóttir, Fjóla Evans, Gísli Magnússon, Gulli Björnsson, Gylfi Gudjohnsen, Inga Magnes Weisshappel, Ingibjörg Friðriksdóttir, Katrín Helga Ólafsdóttir og Örnólfur Eldon.

„Við köllum þessa tónleika Tvístrun því þar erum við að sjá hvað við getum lært hvert af öðru, í gegn um það sem er ólíkt. Þarna eru hljóðfæraleikarar sem spila klassík og tónskáld sem sum hver semja rafverk og enn þá óhefðbundnari verk. Fólk er að vinna með ólíka miðla og það er spennandi fyrir það að vinna saman. Þarna heyra tónskáldin verk sín flutt af framúrskarandi hljóðfæraleikurum og hljóðfæraleikararnir takast á við ný verkefni. Tónleikarnir spanna ólíkar nálganir yfir langan, rúmlega tveggja klukkutíma tímaramma, sem er rík upplifun fyrir áheyrendur. Við vonumst svo til að þetta samstarf geti leitt af sér frekara samstarf þegar fram líða stundir,“ segir Ragnar.

Á undan tónleikunum á laugardaginn fara fram opnar umræður um stöðu hátíðarinnar og félagsins. Miðasala fer fram á tix.is og hægt er að velja um miða á staka tónleika eða passa sem gildir á báða viðburði.