Í Hamraskóla hefur verið hefð fyrir því í mörg ár að taka þátt í Lífshlaupinu en fyrir hvatningu íþróttakennara og annarra starfsmanna skólans hefur tekist að virkja börnin vel til þátttöku og mikil stemming hefur skapast í skólanum meðan á keppninni stendur.

„Við leggjum það í hendur umsjónarkennaranna að virkja sína hópa en íþróttakennarar skólans hafa haldið vel utan um keppnina hjá okkur. Það er heilmikil hvatning í gangi og þátttaka hjá krökkunum hefur verið mjög góð. Þau hafa verið dugleg að labba og hreyfa sig svo skólinn hefur lent ofarlega í keppninni síðustu ár. Það er því orðin rík hefð fyrir keppninni innan skólans,“ segir Anna Bergsdóttir, skólastjóri Hamraskóla.

Börnin eru hvött til að hreyfa sig bæði innan og utan skólatíma og skrá alla hreyfingu. Anna segir að bekkurinn fari kannski saman í göngutúr einu sinni á meðan á keppninni stendur en annars eru þau bara að skrá sína hreyfingu sem einstaklingar.

„Við lítum á Lífshlaupið sem hvatningu til almennrar hreyfingar frekar en að við séum að skipuleggja sérstaka hreyfidagskrá. Við erum heilsueflandi skóli og leggjum mikið upp úr hreyfingu og tökum þátt í öllu sem er í boði fyrir skóla, svo hvatningin er fyrir hendi. Við leggjum sérstaka áherslu á hreyfingu og sérstaklega í tengslum við lífshlaupið,“ segir hún.

Hamraskóli hefur margoft unnið til verðlauna í sínum flokki í Lífshlaupinu og Anna segir hlæjandi að hún hafi ekki tölu á hversu margir verðlaunaskildir séu í skólanum.

Krakkarnir taka árlega þátt í gönguáskorun og keppa um gullskóinn.

Keppa um gullskóinn

Júlíana Hauksdóttir aðstoðarskólastjóri segir að skólinn taki líka þátt í verkefninu Göngum í skólann en þá keppa bekkirnir í Hamraskóla innbyrðis um gullskóinn. Sú keppni endar á því að sá bekkur sem hefur staðið sig best vinnur verðlaunagripinn gullskóinn, gylltan skó sem geymdur er í skólastofunni þar til næsti bekkur hreppir hnossið. Það er því greinilega mikið gert í Hamraskóla til að hvetja nemendurna til hreyfingar og heilsueflingar.

„Til að hvetja bekkina áfram þá hittumst við alltaf reglulega í sal skólans, að vísu ekki undanfarið vegna Covid en áður fyrr gerðum við það. Við höfum þá sett upp stöðuna svo krakkarnir sjái hvernig bekkirnir eru að standa sig. Það er ýmislegt gert til að halda krökkunum við efnið,“ segir Júlíana.

Meðan á Lífshlaupinu stendur fá krakkarnir einnig upplýsingar um stöðu Hamraskóla reglulega sem hvetur þau til dáða.

„Skólinn er upp í 7. bekk en í yngstu árgöngunum hafa kennararnir séð um skráninguna fyrir krakkana að miklu leyti en börnin í eldri bekkjunum sjá um hana sjálf. En ef það er íþróttatími í einhverjum bekk þá skráir kennarinn það og eins ef allir fóru í sund. Það er haldið vel utan um þetta hér,“ segir Júlíana.

„Við sendum líka alltaf upplýsingar til foreldranna svo þau geti stutt sitt barn við að skrá hreyfingu. Við höfum heyrt að þetta sé hvatning fyrir þau til að fara með fjölskyldunni út að ganga, sem er mjög gaman,“ segir hún og bætir við að Hamraskóli sé að sjálfsögðu búin að skrá sig til leiks í ár og þau hlakki til áskorunarinnar. ■