Netflix

You (3)

Framleiðendur: Greg Berlanti og Sera Gamble

Aðalhlutverk: Penn Badgley, Victoria Pedretti, Saffron Burrows, Tati Gabrielle

Sálfræðiástartryllirinn You, með Gossip Girl-stjörnunni Penn Badgley í aðalhlutverki, er mættur aftur á Netflix og nú í þriðja sinn. Fyrsta serían fór enda með himinskautum á vinsældalistum streymisveitunnar.

Í þriðju seríu hittum við Joe Goldberg enn og aftur og á nýjum slóðum. Hvorki í New York né Los Angeles, heldur úthverfinu Madre Linda. Eftir að hafa fylgst með okkar manni verða ástföngnum á sinn sjúka hátt í fyrstu tveimur seríum verða nú önnur vandamál á vegi hans, enda okkar maður orðinn fjölskyldumaður.

Samband persóna þeirra Penn Badgley og Victoria Pedretti eru það áhugaverðasta í nýju seríunni.
Mynd/Netflix

Þrátt fyrir þetta eru vandamálin sem banka upp á ansi kunnugleg. Hér fær maður á tilfinninguna að sagan sé orðin eilítið útþynnt, en serían byggir á bókum Caroline Kepnes um tjéðan Joe Goldberg. Þá er hið klassíska vandamál sem gjarnan fylgir tíu þátta Netflix-seríum til staðar hér; serían virkar eins og tvær seríur í einni og sumar senur virka eins og þær hafi verið lengdar til að ná upp í mínútufjöldann sem Netflix pantaði.

Eitthvað við You heldur hins vegar áfram að virka og að mörgu leyti má segja að seríurnar séu í raun allar fullkomnar fyrir þá streymisveituöld sem við lifum. Þrátt fyrir vankanta á það sama við um þriðju seríuna. Andhetjan Joe Goldberg og hans sjúku hugarórar halda manni nefnilega föstum við skjáinn. Í þriðju seríunni veitir eiginkona hans, Love Quinn, leikin af hinni lítt þekktu Victoriu Pedretti, honum hins vegar góða samkeppni.

Áhugavert samband þeirra Love og Joe er enda í forgrunni í þessari seríu og við sjáum persónurnar reyna að fóta sig í nýjum hlutverkum sem foreldrar. Samband þeirra er það áhugaverðasta á skjánum og í anda seríunnar nær það yfir allt litrófið; stundum fallegt en oftast frekar sjúkt.

Maður veltir hins vegar fyrir sér hvenær nóg er nóg og munu margir eflaust ranghvolfa augunum yfir ýmsum beygjum og snúningum sem handritið tekur hér. Netflix er þó hvergi hætt, enda serían gríðarlega vinsæl og sú fjórða nú þegar á leiðinni. Sama hvað okkur finnst.

Niðurstaða: You (3) er spennandi og aðdáendur hinna seríanna verða ekki fyrir vonbrigðum. Efnislega er þetta hins vegar orðið ansi rýrt og geldur serían fyrir lengdina þótt segja megi að þetta sé í raun hin fullkomna afþreying á Netflix.