Hin íslenska Águsta Ýr var fyrirsæta á tískusýningu undirfatamerkis söngkonunnar Rihönnu á New York Fashion Week. Söngkonan kom sjálf fram á sýningunni ásamt fjölmörgum heimþekktum fyrirsætum, tónlistarfólki og svo mætti lengi telja.

„Þetta var mjög súrrealískt og bar brátt að. Ég fékk símtal frá umboðsmanninum mínum, Alex Tsebelis hjá No Agency NYC, seint á laugardagskvöldi,“ segir Águsta Ýr, leikstjóri, listakona og fyrirsæta sem er búsett í London. Hún bjó áður í New York þar sem sýningin fór fram.

„Umboðsmaðurinn minn sagði mér að ég væri bókuð í gigg og að ég þyrfti að fljúga til New York strax daginn eftir. Ég lenti þar og fór beint á æfingu í Barclays Center í Brooklyn, þar sem allar fyrirsæturnar og dansararnir voru mættir.“

Tími Victoria Secret-sýningarinnar liðinn?

Þeirra á meðal voru rapparinn 21 Savage, ofurfyrirsæturnar Joan Smalls, Cara Delavigne, Bella og Giggi Hadid. Segja margir að hér sé kominn fullkominn staðgengill fyrir Victoria Secret undirfatasýninguna sem hefur verið haldin árlega en var sleppt í ár eftir háværar gagnrýnisraddir.

Ofurfyrirsætan Joan Smalls og rapparinn 21 Savage, en hann hvatti Ágústu til dáða þegar verið var að mynda hana.
Mynd/Nordic Photos

Stór ástæða gagnrýninnar var að Ed Razek einn af stjórnarformönnum Victoria Secret sór að transkona myndi aldrei verða Victoria Secret-engill. Rihanna var meira í því að fagna fjölbreytileikanum og fékk transkonuna Laverne Cox meðal annars til að sýna undirföt fyrir merkið.

Fékk knús frá sjálfri Rihönnu

,,Daginn eftir að ég lenti var svo tískusýningin og allir mættir, þvílíkt adrenalín í gangi hjá okkur. Við gerðum svokallaða prufusýningu, svo var farið beint í hár, förðun og svo að í fötin. Rétt fyrir sýninguna var verið að taka mynd af mér baksviðs og ég heyri í 21 savage segja ,,Get them angles!” sem er auðvitað bara mjög fyndið!“

Hún segir að sýningin hafi verið frábær í alla staði, sem og andrúmsloftið.

„Allir voru mjög almennilegir og stuðningsríkir. Þeir sem voru að skipuleggja hrósuðu öllum áður og maður heyrði bara ,,YES BITCH; WORK HONEY! Sýningin sem var um það bil fjörutíu mín, en leið eins og bara fimm mínútur. Svo var allt í einu allt búið. Það voru allir svo ánægðir með sýninguna og ég endaði kvöldið með að fá knús frá Rihönnu sem var algjörlega kirsuberið á toppinn“ segir Ágústa