Þetta leggst mjög vel í mig, segir Hrönn Marinósdóttir stjórnandi kvikmyndahátíðarinnar RIFF sem hefst í sautjánda skipti í dag. Þrátt fyrir að aðdragandinn hafi verið óeðlilegur spruttu margar nýjungar upp í ár.

„Við þurftum auðvitað að fara í plan B og vinna hátíðina á COVID-vænan hátt svo sem flestir geti tekið þátt. Það var auðvitað áskorun að koma þessu saman, en það er engin spurning að það hafa líka komið upp frábærar nýjungar sem okkur hefði aldrei dottið í hug nema vegna kófsins.“

Ein helsta nýjungin hjá RIFF í ár er möguleikinn á að horfa á myndir í góðum gæðum í gegnum heimasíðu hátíðarinnar, riff.is „Við vildum endilega að landsbyggðin öll og þeir sem ekki eiga heimangengt geti tekið þátt í hátíðinni. Fólk er mjög spennt fyrir þessu og að það geti upplifað eitthvað svona á þessum erfiðu tímum.“

Hrönn segir að þótt hugmyndin um að hýsa hátíðina að hluta til á vefnum hafi sprottið úr kófinu, sé hún vonandi komin til að vera. „Við stefnum á að sýna áfram myndir í gegnum vefinn á komandi hátíðum, svo hægt verði að ná til fólks utan höfuðborgarsvæðisins.“

Myndirnar í ár eru margar hverjar splunkunýjar og koma beint frá stærstu kvikmyndahátíðunum um heim allan. „Við erum mjög stolt af þessari dagskrá sem við höfum unnið með nýjum dagskrárstjóra hátíðarinnar, Frédéric Boyer. Sýningar eru takmarkaðar og miðaverð ódýrt svo það er um að gera að tryggja sér miða sem fyrst í gegnum vefinn.“


Bíóbíllinn slær í gegn


Nýjungarnar í ár eru ekki allar stafrænar, en til að hita upp fyrir hátíðina var útbúinn svokallaður bíóbíll sem heimsótti landsbyggðina í vikunni sem leið. „Viðtökurnar við Bíóbílnum hafa verið vonum framar.“ segir Hrönn. „Við erum strax farin að fá fyrirspurnir um hvort það sé hægt að fá hann aftur, og þá sem fyrst. Það eru svo fá kvikmyndahús eftir á landsbyggðinni, svo það er virkilega gaman að endurvekja bíóstemninguna þar.“

Þá verður einnig skellt í eitt stærsta bílabíó sem sést hefur á landinu. „Þetta á að verða skemmtileg upplifun og við vildum endilega færa þetta upp á næsta stig,“ segir Hrönn. „Til dæmis verðum við með sýningu á Hárinu þar sem fólk er hvatt til að mæta í hippafötum. Þar verða svo matarvagnar og leikarar og dansarar sem munu skapa stemningu í kringum sýninguna.“