Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, verður sett í 18. sinn í dag og stendur til 10. október. Venju samkvæmt verður mikið og fjölbreytt úrval kvikmynda af öllum gerðum og frá ýmsum heimshornum á dagskrá en allar upplýsingar má nálgast á riff.‌is. Myndirnar verða sýndar í Bíó Paradís, Norræna húsinu og víðar auk þess sem úrval mynda verður aðgengilegt á netinu.

Hátíðarmyndirnar koma margar hverjar beint til landsins frá stærstu hátíðum sumarsins, Cannes og hausthátíðunum í Feneyjum og Toronto. Opnunarmynd RIFF í ár verður The Worst Person in The World eftir Joachim Trier sem þykir meðal áhugaverðustu leikstjórum samtímans.

Holland í Fókus

Holland verður í Fókus með úrvali glænýrra hollenskra mynda sem vakið hafa athygli á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Þar á meðal Benedetta eftir hinn umdeilda Paul Verhoeven sem vakti mikla athygli fyrir grófar senur í Cannes. Einvalalið úr hollenska kvikmyndageiranum mun sækja hátíðina heim og fylgja myndum sínum eftir.

Sígilt sundbíó

Sundbíóið hefur fest sig í sessi sem einn af sérviðburðum RIFF og á föstudag klukkan 19.30 verður hægt að stinga sér í Sundhöllina og horfa á költ-klassíkina The Life Aquatic with Steve Zissou. Viðeigandi þar sem myndin gerist að mestu í vatni. Sem fyrr verður áherslan á upplifunina og gestir mega búast við óvæntum uppákomum.