Síðasti skipulagði upplýsingafundur almannavarna vegna kórónaveirunnar verður haldinn á mánudaginn. „Það verða viðbrigði þegar fundum lýkur og mér skilst að fjölmiðlahöllin sjálf verði tekin sundur og fjarlægð eftir lokafundinn,“ segir Björn Ingi Hrafnsson frá Viljanum, um samsettu gámana sem hýst hafa blaðamannafundina.

90 prósenta mæting

Þríeykið Alma, Þórólfur og Víðir hefur borið fundaröðina uppi og í raun slegið í gegn sem sjónvarpsstjörnur og hinum megin borðsins hefur Björn Ingi nánast orðið jafn fastur punktur og er honum því eðlilega við brugðið.

Alma Möller landlæknir hefur lítið látið sjá sig á upplýsingafundunum undanfarið en mun mæta í lokaþáttinn. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann man ekki nákvæmlega hvenær hann mætti fyrst á fund. „En ég hef klárlega náð níutíu og eitthvað prósentum af fundunum og líklega bara Víðir sem hefur verið viðstaddur fleiri. Því Þórólfur sleppti sumum og Alma var þá í hans stað.“ segir hann.

„Þetta verða ekki viðbrigði bara fyrir mig, heldur landsmenn alla, þar sem ég veit að mörgum hefur þótt gott að geta gengið að upplýsingum frá þríeykinu á þessum tíma um mál málanna.“

Björn Ingi telur fundina hafa aukið fólki öryggiskennd á viðsjárverðum tímum. „Það verður að segjast að þetta framtak, allir þessir upplýsingafundir, var frábærlega vel heppnað og eflaust talið síðar meir kennslubókardæmi í vel heppnuðum almannatengslum.“

Góðan og blessaðan daginn

Fréttablaðið hefur fengið staðfest að Alma Möller landlæknir muni snúa aftur í lokaþættinum á mánudaginn, en það sem af er mánuðinum hefur hún verið sjaldséður gestur í þessu vinsæla sjónvarpsefni.

Þríeykið kemur þannig líklega saman til að kveðja og slá botninn í þáttaröðina og Björn Ingi ætlar að sjálfsögðu ekki að missa af neinu, enda meðvitaður um að fjörið er oft ekki síst mikið að tjaldabaki.

Víðir og plastplantan sem á tímabili var grunuð um að valda honum nefkláða. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Það hefur margt eftirminnilegt átt sér stað, ekki síst á bak við tjöldin. Þórólfur, Alma og Víðir hafa tekið þátt með blaðamönnum í að slá á létta strengi fyrir fundi til að létta andrúmsloftið,“ segir Björn Ingi.

„Þess vegna sést þríeykið oft brosandi eða jafnvel skellihlæjandi í mynd áður en hljóðið kemst á og formlegur fundur er settur með þeim fleygu orðum: Góðan og blessaðan daginn.“

Plastplöntuofnæmi Víðis

„Þríeykið hefur hent gaman að því hvað það eigi eiginlega að gera þegar fundirnir verða aflagðir og sagt í gríni að þau verði áfram að halda einhverja fundi með okkur blaðamönnum til að fráhvörfin verði ekki of mikil, “ heldur Björn Ingi áfram og víkur að yfirvofandi tómarúminu.

„Víði hefur stundum klæjað í nefið á fundum og hann hélt á tímabili að það væri vegna þess að hann hefði ofnæmi fyrir plöntu sem er við hlið hans á fundunum. Þeirri kenningu var varpað fyrir róða þegar kom í ljós að um gerviblóm var að ræða,“ segir Björn Ingi, um eftirminnilegar uppákomur á fundunum.

Draumur um sætaskipti

„Þórólfur hefur stundum grínast með það að hann langi til að skipta um sæti við blaðamenn, segist vera með spurningu sem hann langi að fá svar við,“ segir tíðindamaður Viljans, fullmeðvitaður um sinn þátt í spurningaflóðinu.

Þórólfur væri alveg til í að hafa sætaskipti við blaðamennina sem hafa heldur betur haldið honum við efnið. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ég hef auðvitað komið með fjölmargar spurningar sem vakið hafa mikla athygli og orðið fréttaefni, til dæmis um möguleikann á að enska úrvalsdeildin komi hingað til lands, sænsku leiðina, lokun landamæranna og aftur opnun þeirra, en líklega var skemmtilegast að fá svör dr. Þórólfs við tilmælum danskra og hollenskra starfsbræðra hans um það hvernig fólk á að snúa sér varðandi tilhugalíf og bólfélaga á tímum kórónuveirunnar.“