Leikarinn John Rhys-Davies hefur upp raust sína með því að fara með erindi úr dramatísku ljóði eftir enska leik- og ljóðskáldið John Dryden, Beneath a myrtle shade, frá 1670 eða þar um bil. Drynjandi röddin kallar fram gervi tortryggna dvergsins úr þríleik J.R.R. Tolkien um The Lord of the Rings sem hann sló í gegn fyrir að túlka. Rhys-Davies er hins vegar nokkuð hávaxinn maður og hefur fallegan velskan hreim. Hann er ljóðelskur maður.

„Þetta er eitt af mínum uppáhaldsljóðum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á ljóðlist,“ segir Rhys-Davies er við göngum í átt að bíósal númer þrjú. Við tyllum okkur í myrkrinu meðan hann lýkur einu erindinu: „Þú getur ei roðnað, því ég get ei séð,“ og við það kvikna ljósin í salnum. Það kæmi ekki á óvart að þessi velski listamaður lumaði á ljóði frá miðöldum fyrir hvert tilefni.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem til Íslands og mér líkar það alveg afskaplega vel. Þetta er elskuleg þjóð og hér hefur verið tekið vel á móti mér,“ segir hann.

„Íslendingar þekkja sögu sína vel og vita mikið um forfeður sína. Það er sjaldgæft fyrir marga en afskaplega mikilvægt. Margir vita ekki hvaðan þeir koma en allir þeir Íslendingar sem ég hef hitt vita það og það er dásamlegt. Þið berið ekki með ykkur þau einkenni eyjarskeggja að vera þröngsýn og andsnúin utanaðkomandi, heldur hlý og vinaleg. Þið eruð nútímafólk og kraftmikil og svo ég vitni í T.S. Elliot, góð blanda af hinu gamla og nýja.“

Kynntist Shakespeare ungur

John Rhys-Davies er fæddur árið 1944 í Salisbury í Wiltshire á Englandi en ólst upp að hluta í Wales. Móðir hans var hjúkrunarkona og faðir hans var vélaverkfræðingur og nýlendustjóri.

„Ég var sendur í heimavistarskóla í Cornwall á Englandi aðeins níu ára gamall. Ég var nýkominn heim frá Afríku þar sem fjölskyldan bjó á meðan faðir minn gegndi starfi nýlendustjóra. Ég ólst því upp að mestu í villtri náttúru. Í Afríku hafði ég verið frjáls og í raun aldrei lært að leika við önnur börn. En í skólanum voru aðrir nýlendudrengir sem ég tengdi við,“ segir Rhys-Davies.

„Ég var hins vegar uppreisnarbarn og þoldi ekki þennan skóla. En þetta var góður skóli sem færði mér Shakespeare. Hið magnaða leyndarmál um börn er að finna það sem þau hafa ástríðu fyrir. Þegar ég kynntist Shakespeare öðlaðist ég orðaforðann fyrir reiði mína.“

Í skólaleikritum fór hann með stór hlutverk, meðal annars Óþelló og fleiri. Leiðin lá síðan í háskólann í Vestur-Anglíu þar sem hann var einn af 105 nemendum sem fengu inngöngu. Þar stofnaði Rhys-Davies The Dramatic Society og eðlilega fékk hann þar öll bestu hlutverkin.

Hann giftist fyrri eiginkonu sinni, Suzanne Wilkinson, árið 1966 áður en hann kláraði námið í skólanum og kenndi á meðan í eitt ár við grunnskóla í Norfolk á meðan Suzanne kláraði sitt nám. Í kjölfarið fékk hann inngöngu í konunglega leiklistarskólann í London.

Leikarinn eignaðist tvo syni með Suzanne en þau skildu árið 1985. Suzanne fékk Alzheimer en hann annaðist hana þar til hún lést árið 2010. Í dag býr Rhys-Davies með fjölmiðlakonunni Lisu Manning og eiga þau 12 ára dóttur. „Enginn ætti að gifta sig fyrir þrítugt,“ segir hann kíminn. „Ég fékk síðan vinnu í leikhúsinu og hóf störf á mánudagsmorgni 28. júlí 1969. Ég fagna því fimmtíu ára leiklistar­afmæli á næsta ári.“

Hafnaði næstum því hlutverkinu

John Rhys-Davies hefur farið með ýmis hlutverk í sjónvarpi og kvikmyndum á borð við Shogun, The Naked Civil Servant, Sliders og Indiana Jones sem var lykill hans að Hollywood. „Svo gerði ég þau mistök að fara til Hollywood,“ segir hann og hlær. „Þar átti ég reyndar 20 frábær ár og flestum leikurum líður eins og þeir eigi að vera þar. En gæði eru ekki endilega í forgrunni þar. Að sjálfsögðu eru ótalmargir frábærir brautryðjendur með stórkostlega hæfileika, en svo eru það hinir.“ En Lord of the Rings myndi þá falla undir gæðin í Hollywood? „Já, vissulega, en Lord of the Rings er frá Nýja-Sjálandi.“

Stærsta hlutverk Rhys-Davies er án efa að túlka dverginn Gimli, son Glóins. Hann hefur sagt í viðtölum að hann hafi næstum því hafnað hlutverkinu en tók því svo á endanum og sér ekki eftir því. Einnig talaði hann fyrir Trjáskegg í myndunum.

„Ég held að það sem gerir Gimli áhugaverðan er að hann er tákngervingur allra okkar slæmu eiginleika. Þetta mikla vantraust, afbrýðisemi, vænisýki og hræðsla við „aðra“. Við þekkjum öll þessa eiginleika og viljum síður hafa þá. En hann er líka gæddur kostum sem við viljum öll tileinka okkur, hugrekki, hollustu og viljanum til að vernda þá sem minna mega sín,“ segir Rhys-Davies, sem þylur upp hina frægu setningu Gimlis: „Óumflýjanlegur dauði, lítill möguleiki á árangri. Eftir hverju bíðum við?“

Skoðar sögu frumbyggja

„Eftir að hafa dreymt um það í þrjátíu ár er ég við það að stofna mitt eigið framleiðslufyrirtæki. Ég fann aldrei réttu aðilana til að vinna með. En hingað er ég kominn, ekki aðeins til að leika í kvikmynd, heldur einnig til þess að líta í kringum mig,“ segir hann. Ekki er komið nafn á fyrirtækið en Rhys-Davies vinnur nú að verkefni um frumbyggja, Homo sapiens og Neanderdalsmenn. Um er að ræða kvikmynd sem gerist fyrir um 18-20 þúsund árum þegar forfeður- og mæður okkar voru öll eins. Rhys-Davies hefur mikinn áhuga á sögu mannkyns og því sem tengist mannskepnunni.

„Heilinn í okkur var um 10 prósent stærri þá en nú. Það leikur einnig vaxandi grunur á því að við höfum verið gáfaðri þá en nú. Þau komust lífs af í alls konar aðstæðum sem myndu drepa flesta í dag. Þeirra ógæfa var hins vegar sú að bráð þeirra var stærri, sterkari og hraðskreiðari og kunni ýmist að fljúga eða synda. Yfirburðir þeirra fólust í heilanum og hæfni þeirra til að hugsa og greina aðstæður,“ segir leikarinn.

„Lífslíkur kvenna voru þó afar litlar. Meðalkonan náði aðeins um 21 aldursári og ástæðan var einna helst barnsburður. Jafnvel á tímum Rómaveldis var meðalaldurinn aðeins 25 ár. Að sjálfsögðu voru konur sem náðu 60, 70 árum en það voru þá gjarnan konur sem höfðu aldrei eignast börn. Það er fyrir þessar ungu, mögnuðu konur á þessum tíma sem gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að halda lífi í börnum sínum og þar með viðhalda arfleifð okkar.“

Rhys-Davies segist hafa orðið fyrir uppljómun þegar hann skrifaði handritið að kvikmynd sinni. „Ég held að ég hafi uppgötvað eitthvað sem getur mögulega útskýrt ákveðna hegðun karla gagnvart konum. Sögulega hafa karlmenn ekki gefið skoðunum kvenna mikinn gaum í gegnum aldirnar. Hvers vegna? Nú, það er mikill þroska­munur á 17 ára gömlum ungum manni og 34 ára eða fimmtugum manni. Og konur eru ekki undantekning. Konur náðu ekki háum aldri fyrr en fyrir kannski um 1-2.000 árum. Ég held að ástæðan fyrir ákveðnum viðhorfum sumra manna gagnvart konum og því að þeir taki þær ekki alvarlega, sé meðal annars vegna þess að þeir hittu aldrei neinar. Það voru svo fáar konur sem náðu fullorðinsaldri á þessum tímum og þetta hefur fylgt kynslóðunum í gegnum tíðina.“

Mikilvægt að halda í góð gildi

Leikarinn var róttækur vinstrimaður á háskólaárum sínum í kringum 1960 og segist hafa haft sterk gildi um lýðræði, jafnrétti, tjáningarfrelsi og frelsi einstaklingsins til að hafa rétt á og viðra skoðanir sínar, svo lengi sem það skaði ekki aðra.

„Öll þau gildi og skoðanir sem ég hafði þá hef ég enn í dag. Þegar ég byrjaði á þessu verkefni vildi ég finna eitthvað sem við gætum öll tengt við og kannski jafnvel sammælst um. Því lengra sem við förum aftur í tímann og könnum mannskepnuna, því skýrari verður hegðun okkar,“ segir hann.

„Ég veit ekki tilganginn með þessu lífi en ég get sagt þér hver ásetningur okkar er út frá uppruna okkar. Ásetningur okkar er einfaldur, í fyrsta lagi að lifa af og í öðru lagi að vera betri útgáfa af foreldrum okkar og undirbúa börnin okkar fyrir það að vera betri útgáfa af okkur sjálfum. Ef við missum sjónar á þessu, missum við sjónar á því sem hefur leitt mannskepnuna áfram frá upphafi tíma.“

John Rhys-Davies prýðir forsíðu helgarblaðs Fréttablaðsins sem verður dreift á morgun.