„Það eru til margir podcast þættir sem einblína á karladeildirnar og okkur fannst vanta vettvang sem myndi gefa knattspyrnu kvenna meiri gaum,“ segir Mist Rúnarsdóttir, annar þáttastjórnandi nýrra hlaðvarpsþátta sem fjalla um íslenska knattspyrnu kvenna. 

Fótboltakonan Hulda Mýrdal stýrir þáttunum ásamt Mist, en þær kynntust í gegnum skrif sín um fótbolta á Fótbolti.net. 

Vilja hvetja til frekari umfjöllunar um knattspyrnu kvenna

„Okkur fannst vanta meiri umfjöllun um knattspyrnu kvenna og viljum hvetja fleiri stelpur til að spila, þjálfa eða fjalla um fótbolta,“ segir Mist í samtali við Fréttablaðið. 

Í fyrsta þættinum, sem fór í loftið í fyrradag, er umfjöllunarefnið Pepsi deild kvenna í sumar en deildina einungis brotabrot því umfjöllunarefni sem er í kortunum. 

„Við erum með endalaust af hugmyndum, við viljum til dæmis fjalla um allar deildirnar hérna heima, landsliðið og svo erum við með mikið af áhugaverðum afrekskonum í huga sem fólk þekkir ekki nægilega vel og vil myndum vilja fá sem gesti í þættina svo fólk geti kynnst íþróttakonunum okkar,“ segir hún.

Leita enn að nafni á þáttinn

Aðspurð hvort það komi til greina að fjalla um deildir kvenna erlendis segir Mist ekkert útilokað, en hugmyndin sé í grunninn að fjalla um íslenska boltann og það verði forgrunni. 

Þátturinn er ekki enn kominn með nafn og taka Hulda og Mist fagnandi við öllum nýjum hugmyndum. „Við erum ekki búnar að fínpússa þetta alveg eða njörva þetta niður en hugmyndin er að fókusa á íslenska boltann. Við ákváðum að koma þættinum bara út og sjá hvert það leiðir okkur.“

Hægt er að nálgast þáttinn hér, eða í snjallforriti fyrir hlaðvörp.