Að fenginni reynslu er yfirskrift sýningar Kristbergs Ó. Péturssonar í SÍM-húsinu. Sýningin samanstendur af myndverkum sem gerð eru með þekjulitum og eru frá þessu ári og því síðasta. Á sýningunni eru einnig ljóð eftir Kristberg, sem eru bæði á íslensku og í enskri þýðingu Aðalsteins Ingólfssonar.

Í sýningarskrá segir: „Margir eiga bágt í samfélagi okkar. Sumir eru jaðarsettir, utangarðs, jafnvel útskúfaðir og jafnframt í vissum skilningi innilokaðir eða staddir í blindgötu. Við erum stundum fljót að dæma. Það er mikilvægt að gæta virðingar. Allir hafa sögu að segja. Jákvæðni, umburðarlyndi, tillitssemi og trúnaður er mikilvægt. Það er líka mikilvægt að taka fólki eins og það er og vera til staðar fyrir hvert annað. Verkin innihalda sammannlega og almenna skírskotun.“

Myrk verk

„Þetta eru myrk verk en það örlar samt á litum í nokkrum þeirra,“ segir Kristbergur. „Í fyrra fóru alls konar fígúrur að detta inn í myndverkin hjá mér í skissuvinnunni. Smám saman áttaði ég mig á því að þessar fígúrur áttu rætur að rekja til starfsumhverfis míns og reynslu sem starfsmaður í heimaþjónustu Hafnarfjarðar. Þar hef ég séð ýmislegt og kynnst mismunandi aðstæðum fólks, sérstaklega þeirra sem komnir eru á efri ár. En ég legg áherslu á að verkin innihalda einungis almennar skírskotanir sem geta átt við hvar og hvenær sem er.

Ég hef líka haldið námskeið fyrir eldri borgara, þá sem þurfa starfsendurhæfingu og geðfatlaða. Öll þessi reynsla sópaðist saman og braust út í þessum verkum sem gengu þvert á öll mín plön í myndlistinni. Ég er myndlistarmaður sem málar abstrakt og er ekki fígúratífur. En eins og John Lennon sagði: Life is what happens when you are busy making other plans. Þetta varð að fá sinn tíma og sitt pláss og útkoman er á þessum veggjum.“

Sjö ljóð

Um ljóðin segir hann: „Í nokkur ár hef ég fengist við að yrkja ljóð. Ég valdi sjö þeirra á sýninguna, þau fjalla um manninn í hinum ýmsu myndum. Þótt það séu engin bein tengsl milli ljóðanna og myndanna þá finnst mér ljóðin geta virkað í samhengi við myndverkin og það sem ég er að hugsa í þeim.“

Sýning Kristbergs stendur til 21. ágúst og er opin á virkum dögum kl. 10 til 16.