Þetta er ótrúlega fljótt að líða,“ segir Reynir Traustason, blaðamaður og rithöfundur, sem gerði stormandi lukku í jólabókaflóðinu 2004 með Sonja – Líf og leyndardómar Sonju W. Benjamínsson de Zorrilla. Bókin er nú gengin í endurnýjun lífdaga í upplestri útvarpsstjörnunnar Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur og er á einni viku meðal vinsælustu íslensku bókanna á Storytel.

„Þetta er bara ánægjulegt. Bækurnar eru náttúrulega löngu farnar úr sölu og allt það, þannig að nú fá þessar sögur nýtt líf og ég er í sjálfu sér alveg sáttur við það,“ segir Reynir og bætir við að allar hafi þessar bækur fyrir löngu skilað sínu. Séu löngu uppseldar og jafnvel illfáanlegar.

Sonja vekur enn umtal

„Það er bara svoleiðis, en það var náttúrlega svolítið mikið til af Sonju á tímabili vegna þess að hún var prentuð í eitthvað yfir tíu þúsund eintökum. Hún hefur alveg haldið vinsældum og er mikið umtöluð enn þá. En þetta er allt að baki og svo veit ég svo sem ekkert um peningahliðina á þessu. Ég held það sé nú ekkert mikið sem þetta gefur manni en eitthvað kannski,“ segir Reynir og hlær.

„Þetta eru fjórar bækur frá mér sem eru komnar þarna inn. Sonja, Ragna á Laugabóli, sem reyndar seldist aðeins meira en Sonja á sínum tíma og vakti gríðarlega athygli,“ segir Reynir um bókina Ljósið í Djúpinu - Örlagasaga Rögnu Aðalsteinsdóttur frá 2006.

Hinar bækurnar tvær eru Skuggabörn, blaðamannabók um ungt fólk sem er fast í ofbeldisfullum heimi fíkniefna, og Afhjúpun, sem ef til vill er best lýst sem einhvers konar starfsævisögu Reynis í blaðamennsku.

Meira drama

Ævisögur alls konar fólks eru hryggjarstykkið í höfundarverki Reynis en hann sýndi á sér aðra og jafnvel nokkuð óvænta hlið í smásagnasafninu Þorpið sem svaf, sem kom út fyrir tveimur árum. Þá situr hann nú við skriftir fjarri veirufári þéttbýlisins og þótt hann gefi ekki mikið upp má ætla að hann muni koma úr enn einni áttinni með næstu bók.

„Ég held mig afsíðis enda get ég unnið hvar sem er,“ segir Reynir sem ritstýrir Man.is, Mannlífi á vefnum, í hálfu starfi. „Þetta verður samt alltaf einhvern veginn meira en 50% vinna,“ segir hann og bendir á að það sé ærið verk að fóðra hungraðan vef, þótt prentuð útgáfa tímaritsins liggi í ótímabundnum dvala.

Reynir lætur hins vegar fljóta með að hann sé að skrifa bók en gefur lítið upp þegar hann er spurður um efni hennar. „Það er ekki opinbert en það er ákveðin sagnfræði og mikið drama í þessu á köflum,“ segir blaðamaðurinn og rithöfundurinn, sem hefur margar fjörurnar sopið á löngum ferli en þyrstir þó enn í dramatískar sögur af áhugaverðu fólki.