Sóttkví gerist í Reykjavík í fyrstu bylgju COVID-19. Myndin fjallar um vinkonurnar Lóu, Heklu og Fjólu sem þurfa að fara í sóttkví í tvær vikur. Þær sækja styrk hver hjá annarri með fjarfundum á meðan sóttkvínni stendur. Innilokunin hefur áhrif á líf þeirra allra, en þær standa frammi fyrir flóknum og jafnvel skoplegum aðstæðum í sínu persónulega lífi. Einangrunin og álagið hefur svo sín áhrif á einkalíf þeirra. Handritið er eftir þær Auði Jónsdóttur og Birnu Önnu Björnsdóttur, en Sóttkví er leikstýrt af Reyni Lyngdal. Aðalhlutverk myndarinnar eru í höndum leikkvennanna Elmu Lísu Gunnarsdóttur, Birgittu Birgisdóttur og Láru Jóhönnu Jóhannsdóttur.

Smáatriðin kunnugleg

„Það sem er skemmtilegt við þetta handrit er að öll litlu smáatriðin eru svo kunnugleg. Ég raðtengdi við hversdagslegu smáatriðin í myndinni,“ segir Lára, þegar þær eru inntar eftir því hvort þær hafi tengt sérstaklega við handritið. „Já og nei, ég hef sjálf ekki farið í sóttkví svo ég þekki það ekki en maðurinn minn fór í sóttkví. Þá var ég ein með dóttur okkar, eins og karakter Láru Jóhönnu, Fjóla, sem er föst með börnin heima. Ég tengdi við vináttuna, hlýjuna og húmorinn milli karakteranna í myndinni,“ bætir Elma Lísa við.

En tengduð þið sjálfar við karakterana sem þið lékuð?

„Mér finnst ofboðslega auðvelt að tengja við Fjólu mína, í allri hennar bugun. Við erum kannski ekki líkar en það sem tengir mig við Fjólu er þessi tilfinning um að lífið sé bara aðeins of mikið. Það er eins og hún sé að reyna að halda tuttugu boltum á lofti í einu eða halda á líter af súpu í einni teskeið, sem er bara ekki viðráðanlegt. Svo langar hana kannski bara undir sæng,“ svarar Lára.

„Hekla er mjög hress og ég væri alveg til í að vera vinkona hennar en ég get ekki sagt að ég tengi mikið við ákvarðanirnar sem hún tekur. Ég held að ég myndi ekki fara í sóttkví með ókunnugum manni, ég myndi hugsa hlutina til enda, maður er fastur inni með manneskjunni,“ segir Birgitta um hlutverkið sem hún fer með.

„Já, ég þekki þessa konu, hana Lóu, sem ég leik. Hún er eins og sambland af nokkrum sem ég þekki, nýfráskilin og hress en smá „mess“. Í myndinni er hún í fyrsta skipti ein í langan tíma án barnanna sinna. Hún er hrá en hress á Tinder.“ segir Elma Lísa.

Undarlegt ástand

Þær segja myndina mögulega góða sögulega heimild fyrir áhorfendur framtíðarinnar, þar sem hún gefur ákveðna mynd af þeim veruleika sem við höfum þurft að lifa við síðasta árið.

„Þetta er auðvitað svo súrrealískt að það getur vel verið að eftir tuttugu ár muni manni líða eins og manni hafi bara dreymt þetta undarlega ástand,“ segir Lára Jóhanna.

„Það kæmi mér ekki á óvart að þetta yrði einhvers konar heimild í framtíðinni um stemninguna á COVID-tímum að minnsta kosti,“ bætir Elma Lísa við.

Þær eru sammála um að á þessum flóknu tímum sé einstaklega mikilvægt að rækta samskiptin við vini og fjölskyldu.

„Það skiptir öllu máli. Ég finn það hjá sjálfri mér að maður áttar sig svolítið á því hvað vináttan gefur manni. Mér finnst ég hafa þroskast um átján ár á þessum tíma,“ segir Lára.

„Það er mjög mikilvægt að rækta vináttuna og fjölskylduna, og jafnvel aldrei verið mikilvægara en núna,“ svarar Elma Lísa.

Sóttkví er sýnd á RÚV í kvöld klukkan 20.20