„Ég hugsa svakalega vel um hárið og húðina,“ segir Gunni. „Ég ætla nú bara að vitna í fótboltakappann David Beckham. Strákarnir í Manchester United voru alltaf að gera grín að honum í klefanum vegna þess að hann var alltaf með fullt af „hárstöffi“, kremum og alls konar snyrtidóti. Þeim fannst hann eitthvað hégómlegur með þetta en Beckham sagði við félaga sína: „Strákar, við skulum bara hittast þegar við verðum orðnir sextugir og bera okkur saman þá.“

Ég hef alltaf passað upp á að eiga krem og stelst í þau hjá stelpunum sem ég bý með. Ég nota þessi krem á andlitið og er afar duglegur að drekka vatn sem ég tel lykilinn að til dæmis góðri húð. Þá er ég duglegur að hreyfa mig og halda mér í góðu formi,“ segir Gunni, sem hefur um árabil starfað í tísku- og fatahönnunargeiranum. Hann stofnaði svo hljómsveitina Sycamore Tree fyrir nokkrum árum þar sem hann hefur slegið í gegn ásamt söngkonunni Ágústu Evu Erlendsdóttur. Þá er hann einnig yfirhönnuður hjá Herrafataverzlun Kormáks og Skjaldar.

Um umhirðu hársins sem flestir taka eftir þegar þeir rekast á Gunna segir hann: „Í fyrsta lagi passa ég upp á að taka mikið af vítamínum og ég tek kollagen. Eftir að ég byrjaði að taka inn kollagenið reglulega finn ég rosalega mikinn mun. Hárið verður einhvern veginn betra. Það er líflegra og þykkara og ég mæli með því fyrir karlmenn að taka vítamín og kollagen. Ég nota líka alltaf góð efni til að setja í hárið og ég fer reglulega í klippingu. Þó svo að ég sé ekki að láta skerða mikið af hárinu þá er gott að opna endana í því og fjarlægja allt slit.

Þegar maður er með sítt hár og er karlmaður þá er oft gert grín að mér heima þegar ég er að greiða hárið. Þá byrja ég alltaf efst og síðan ríf ég það niður. En ég er að reyna að læra það að byrja neðst og fara upp þannig að maður rífi ekki af sér allt hárið. Ég nota gel í hárið þar sem ég er með liðað og krullað hár og fæ góðar ráðleggingar hjá rakaranum vegna þess að það er mikil framþróun í öllu sem viðkemur hári,“ segir Gunni.

Hann segist passa upp á hárþvottinn. „Sjampó þurrkar hárið svakalega mikið svo það verður að fara sparlega með það og því þvæ ég hárið á þriggja daga fresti og nota þá hárnæringu. Ef hár er þvegið daglega verður það dautt og líflaust,“ segir Gunni sem af og til lætur setja lit í hárið. „Yfir sumartímann læt ég dekkja það því í sólinni á sumrin verður hárið afar ljóst á mér. Yfir vetrartímann læt ég svo lýsa það til þess að halda því jöfnu. Ég pæli ansi mikið í þessu,“ segir Gunni.

Lífsstíll og mataræði

Gunni segir að frá unglingsaldri hafi hann byrjað að nota andlitskrem. „Maður var kannski aðeins að læðupokast með þetta þegar ég var unglingur en núna hefur orðið breyting á. Menn eru að opna sig með þetta og umræðan er meiri. Í staðinn fyrir það að skella á sig rakspíra eða herrailmvötnum þá er maður farinn að nota meira af til dæmis skeggolíum. Olían er mjög góð fyrir húðina. Hún þarf að fá sína næringu en allt byrjar þetta og endar með lífsstíl og mataræði,“ segir Gunni.

Spurður hvort hann fari á snyrtistofur segir hann: „Nei, af því að ég er aldrei í neinum vandræðum með húðina. Ég fór á snyrtistofur sem unglingur þegar ég var með bólur. Þá lét ég hreinsa húðina því ég vildi ekki enda með ör í andlitinu eftir unglingabólurnar. Mér var ráðlagt af snyrtifræðingunum að drekka mikið vatn, borða hreinan og hollan mat og sneiða sem mest frá því að borða sykur og sætindi. Ég hef reynt að fylgja þessum ráðum en kannski það eina sem ég hef ekki fylgt er að vera ekki mikið úti í sólinni.

Ég elska að vera í sól. Ég veit að það er ekki gott fyrir húðina en ég geri það nú samt en er duglegur að nota sólarvörnina. Maður reynir að halda í unga og fríska útlitið þrátt fyrir að vera orðinn 50 ára gamall. Ásamt því að drekka nóg af vatni, hreyfa sig reglulega og borða hollan mat þá er góður svefn stórt atriði í að halda góðri húð og minnka hrukkur og ellimörk,“ segir Gunni.