Ég byrjaði að safna hundastyttum vegna þess að ég hafði ekki tækifæri til að vera með marga lifandi hunda heima. Helst vildi ég eiga þá fimm stóra en maðurinn minn segir yfirdrifið nóg að vera með tvo hunda á heimilinu í einu. Ég bæti því upp hundaleysið með hundastyttunum,“ segir Dóra Welding sem er lyfjatæknir, einkaþjálfari og mikil hundakona.

Komin eru tuttugu ár síðan Dóra hóf að sanka að sér huggulegum hundastyttum úr óvæntum áttum.

„Margir hafa gaukað að mér hundastyttum úr herbergjum barna sinna, sem þeim hefur þá þótt orðið forljótar og ætlað að setja í Sorpu en ég tek því öllu fegins hendi og finnst allt jafn fagurt,“ segir Dóra brosmild.

Hundastytturnar skipta nú tugum á íðilfögru heimili Dóru og fá þar allar veglegan sess.

„Ég reyni að koma þeim snoturt fyrir og svo kemur jólaskrautið ofan á allt saman. Ég hreinlega tími ekki að pakka hundunum niður fyrir hátíðarnar enda vil ég að hundarnir mínir upplifi jóladýrðina með fjölskyldunni, jafnt lifandi sem dauðir,“ segir hún hlæjandi.

Maðurinn fékk taugaáfall

Eiginmaður Dóru, Hinrik Þráinsson bílasmiður, er fyrir löngu hættur að kippa sér upp við söfnunaráráttu konu sinnar.

„Hann vonast bara til að fara á undan mér yfir móðuna miklu því ellegar lendi hann í vanda með að koma styttunum fyrir. Ég hef haft yndi af hvers kyns punti síðan ég man eftir mér og get lítið að því gert. Það er í móðurættinni að safna fallegu puntdóti og þaðan fæ ég mikla og stöðuga hvatningu til að safna enn meira. Við móðursystir mín erum samtaka í þessu og þegar ég passa fyrir hana kettina fæ ég ávallt hundastyttu að launum,“ segir Dóra þakklát og alltaf á höttunum eftir nýjum hundastyttum.

„Ég hef aðeins dottið inn á Bland.is og antíksölusíður á Facebook og maðurinn minn fékk nánast taugaáfall eitt kvöldið þegar hann leit óvart yfir öxlina á mér uppi í rúmi og hrópaði upp yfir sig: „Ekki ertu að segja mér að þú sért líka á sölusíðunum, Dóra!“ Hann bara bilaðist því honum var svo brugðið og varð svo hræddur, en ég reyni eins og ég get að stilla mig,“ segir Dóra og hlær dátt.

Hundastyttur í eldhússkápum

Dóra hefur gaman af því að ramba á milli antíkbúða og skoða, sér í lagi á ferðalögum í útlöndum og dettur þá gjarnan ein og ein stytta í pokann.

„Ég sakna antíkbúðar Fríðu Frænku alveg svakalega. Þar hékk ég oft tímunum saman við að skoða og datt reglulega í svakalegan lukkupott eins og þegar ég fann þar dásamlega fallegan, svartan, þýskan fjárhund. Nú er ég með í pössun stóra styttu af frönskum bolabít fyrir dóttur mína og vona svo innilega að hún komi honum ekki fyrir í nýju íbúðinni sinni. Uppáhaldið mitt er þó gamall og sjúskaður Schäfer-varðhundur sem ég fann í Húsi fiðrildanna á sínum tíma, en ég heillast mest af gamaldags antíkhundastyttum.“

Það eru þó ekki bara hundastyttur sem prýða híbýli Dóru því þar er líka að finna forláta hundalampa, glæsilegt hundamálverk úr dánarbúi, hundapúða og hundahandklæði.

„Ég er reyndar enn að safna hundastyttum í eldhússkápana. Maðurinn minn spurði hvort meiningin hefði ekki verið að nýta skápana fyrir matarstell en mér finnst gaman að hnjóta þar um eina og eina hundastyttu. Ég kaupi líka mikið af hundapunti í flottu búðunum í Ameríku og stelst alltaf til að kaupa mér eitt og eitt viskastykki,“ segir Dóra kímin.

„Í raun er mér varla viðbjargandi. Ein jólin náði ég að flengjast upp í Efra-Breiðholt vestan af Nesi til að ná í gamla hundastyttu í heimahús á meðan jólasteikin mallaði í ofninum, en allt þetta hef ég fengið á fínum prísum og ekki þurft að punga miklu út.“

Í hundabíó með hvuttunum

Dóra á tvo lifandi Shih-tzu hunda; Benna sem er ellefu ára og Lilla sem er fimm ára.

„Ég vil alltaf eiga tvo hunda því það er svo gaman fyrir þá að hafa félagsskap hvor af öðrum. Ég er þó meira fyrir stóra hunda og átti eitt sinn risastóran Biard-hund. Ég er nú komin með samþykki frá húsbóndanum fyrir stórum hundi þegar þar að kemur. Benni er orðinn ellefu ára og aldraður. Hann var lengi að samþykkja Lilla inn á heimilið og varð pirraður á hvolpalátunum í honum en nú eru þeir orðnir nánir og góðir vinir. Þeir kyssast á morgnana og verða ómögulegir ef annar er tekinn frá. Það er dásamlegt að sjá vináttuna þeirra á milli og hvernig Lilli þvær eyrun á Benna á morgnana. Að eiga hund veitir svo mikla gleði, svo ég tali nú ekki um alla útivistina og göngutúrana. Hundar eru sannir gleðigjafar og traustir vinir, félagsskapurinn er indæll og það er svo gott að þykja vænt um svo saklausar sálir,“ segir Dóra sem átt hefur fimm hunda um dagana.

„Einn átti ég aðeins í fjóra daga. Það var St. Bernharðs-hvolpur sem ég fékk gefins frá ræktanda en þar setti maðurinn minn mér stólinn fyrir dyrnar og sagði að annaðhvort hann eða hundurinn færi af heimilinu. Ég valdi vitaskuld Hinna en grét í heilan dag.“

Dóra segir hundastyttusafnið vekja eftirtekt gesta sem segi heimilið minna á safn.

„Ég segi nú ekki að ég skreyti heimilið fyrir hundana mína en þeir gefa gaum að kollegum sínum sem blasa við í öllum hornum. Ég er líka sjúk í hundabíómyndir og ef það er hundamynd í sjónvarpinu horfa þeir Benni og Lilli með. Ég hef reynt að lafa í gegnum sorglegu Lassie-myndirnar með þeim og get sem betur fer horft á hundamyndir með barnabarninu. Verst hvað þær eru oft sorglegar en þá skælum við bara saman, þótt ég reyni auðvitað hvað ég get að harka af mér.“