Tölvu­þrjótar á vegum rúss­neskra stjórn­valda reyndu að trufla at­kvæða­greiðslu Euro­vision söngva­keppninnar um helgina. Ítölsk lög­reglu­yfir­völd greina frá þessu, að því er fram kemur á vef BBC.

Úkraína fór með sigur úr býtum í keppninni eins og lands­menn vita flestir, eftir að greint var frá síma­at­kvæðum. Rússum var meinuð þátt­taka eftir inn­rás þeirra í Úkraínu.

Að sögn ítalskra lög­reglu­yfir­valda reyndu tölvu­þrjótar á vegum Kill­net hakkara­hópsins að skemma fyrir keppninni í beinni á fyrra undan­úr­slita­kvöldinu, þar sem Úkraína steig á svið, en einnig á aðal­keppninni nú á laugar­dags­kvöld.

Um var að ræða svo­kallaðar DDOS á­rásir en að sögn Ítala náðu net­öryggis­sveitir landsins að koma í veg fyrir að tölvu­þrjótarnir næðu mark­miðum sínum. Þá segja for­svars­menn Euro­vision að reynt hafi verið að hafa á­hrif á niður­stöður keppninnar, en ekki hefur verið gefið nánar út um hvað er verið að ræða.

Þá segir í til­kynningu frá keppninni að for­svars­menn keppninnar hafi komið auga á „mis­fellur“ í at­kvæðum dóm­nefnda sex landa. Það sé litið al­var­legum augum en at­hygli vakti að niður­stöður dóm­nefnda frá Azer­ba­i­jan, Rúmeníu og Georgíu voru lesnar af Martin Österdahl, fram­kvæmda­stjóra keppnninnar um helgina. Að sögn BBC hafa for­svars­menn keppninnar ekki svarað fyrir­spurnum vegna þessa.