Alþjóðlega heimildamyndahátíðin IceDocs hófst á Akranesi í fyrradag og stendur yfir Jónsmessuhelgina og lýkur á sunnudaginn. Þetta er í fjórða sinn sem hátíðin er haldin á Skaganum og sem fyrr er markmið hátíðarinnar að koma því besta sem er að gerast í alþjóðlegri heimildamyndagerð á framfæri á Íslandi og tengja saman kvikmyndagerðarfólk víðs vegar að úr heiminum.

Um tuttugu erlendir gestir heiðra hátíðina með nærveru sinni, þar á meðal Pawel Lozinski, leikstjóri The Balcony Movie, og Simon Lereng Wilmont, leikstjóri A House made of Splinters.

Venju samkvæmt er fjöldi heimildarmynda úr ýmsum áttum á dagskránni, auk þess sem alls konar uppákomur og viðburðir aðrir munu setja svip sinn á bæinn. Í kvöld verður til dæmis hátíðarsýning á hinni fornfrægu heimildarmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar, Rokk í Reykjavík. Tilefnið er 40 ára afmæli myndarinnar og leikstjórinn mun sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.

Frítt er inn á allar bíósýningar en selt verður inn á tónleika og aðra staka viðburði. Þar á meðal eru tónleikar með Högna Egilssyni og Inspector Spacetime, uppistand með Lóu Björk og Hákoni Erni, gjörningur með Die Goldstein, pöbbkviss með Níels Thibaud Girerd, auk veglegrar barnadagskrár á laugardeginum.

Allar kvikmyndasýningar hátíðarinnar fara fram í Bíóhöllinni, einu elsta kvikmyndahúsi landsins, en aðrir viðburðir eru meðal annars haldnir í fjörunni, á breiðinni og hinum rómaða Akranesvita. Dagskrá hátíðarinnar og allar frekari upplýsingar eru á icedocs.is.