Bækur

Reykjavík barnanna

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir

Útgefandi: Iðunn

Fjöldi síðna: 97

Brynhildur Björnsdóttir

Margrét Tryggvadóttir og Linda Ólafsdóttir eiga að baki sérdeilis farsælt samstarf sem meðal annars skilaði okkur Íslandsbók barnanna árið 2016 sem bæði hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkur og Fjöruverðlaunin það árið auk þess að vera tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka.

Nú róa þær á svipuð mið með bókinni Reykjavík barnanna þar sem saga Reykjavíkur er sögð í aðgengilegu máli og sérstaklega þó myndum allt frá því fyrir landnám og fram á okkar daga. Bókin er að sjálfsögðu ekki bara fyrir börn sem búa í Reykjavík heldur skemmtileg heimild um líf á Islandi í fortíðinni, hvernig þéttbýli myndast og þorp verða til.

Á hverri opnu er nýtt umfjöllunarefni, ýmist sögulegir viðburðir, yfirlit yfir einstaka borgarhluta og kennileiti eða þjónustu á borð við íþróttafélög og sundlaugar. Þá eiga bæði skólpleiðslur og draugagangur sína kafla, svo dæmi séu tekin um það á hversu mörgum sviðum borgarlífs er snert í bókinni.

Reykjavík barnanna er stór og vegleg bók sem tekur sig alvarlega og stendur fyllilega undir því. Það má samt ekki misskilja þessa fullyrðingu á þann veg að hún sé leiðinleg, þvert á móti eru umfjöllunarefnin afskaplega fjölbreytt og ekki síður fróðleg fyrir fullorðna lesendur en börn.

Texti Margrétar Tryggvadóttur er vel skrifaður, fróðlegur og hæfilega einfaldur fyrir yngri lesendur en það eru myndir Lindu Ólafsdóttur sem gera Reykjavík barnanna að því listaverki sem hún er. Á hverri opnu eru málverk í takt við textann sem lýsa fjölbreyttu mannlífi þar sem sífellt er hægt að finna nýjar sögur og ævintýri og auka þannig við almennan textann með einstökum sögum.

Reykjavík barnanna er fjársjóður fyrir litla og stóra grúskara þar sem þeir geta lifað sig inn í fyrri tíð, velt fyrir sér skipulagsmálum og atvinnuvegum, hvernig borg verður til og hvernig hún þróast og mótast enda er lesendum bent á það í formála að hafa samband við borgarfulltrúa og taka þannig þátt í að móta borgina til framtíðar.

Niðurstaða: Einstaklega fallegt og fróðlegt stórvirki um borgarlíf og sögu fyrir börn og önnur fróðleiksfús.