Íslenska rappsveitin Reykjavíkurdætur, eða RVKDTR, eru í sviðsljósi erlendra fjölmiðla. New York Times birtu ítarlega grein um hljómsveitina ásamt viðtali við Þuríði Blævi Jóhannsdóttur, meðlim hljómsveitarinnar.

Blær greinir frá því í viðtali við tímaritið að hljómsveitin hafi ávallt verið gríðarlega umdeild. Salka Valsdóttir söngkona sagði einmitt í samtali við Fréttablaðið að Reykjavíkurdætur væru sennilega ein hataðasta hljómsveit landsins og hafi þær þurft að kljást við óeðlilega mikið mótlæti.

Hljómsveitin gaf nýlega frá sér tónlistarmyndbandið við lagið Thirsty Hoes og segir Ragnhildur Holm að það sé fyrsta tónlistarmyndbandið þeirra á Youtube sem hafi ekki fengið skítakomment.

Greint er frá sögu hljómsveitarinnar, hvernig hún fór úr því að vera tuttugu og eins meðlima hljómsveit niður í níu kvenna hljómveit, og gagnrýnina sem þær fengu yfir sig eftir að þær komu fram í Vikunni með Gísla Marteini þegar Ágústa Eva Erlendsdóttir stóð á fætur og yfirgaf sjónvarpssalinn.

Einnig er fjallað um nýjustu plötu hljómsveitarinnar, Soft spot, sem kom út í dag.

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vef New York Times.