Í heimi sem tekur stöðugum breytingum er notalegt að vita til þess að sumt breytist eiginlega ekki neitt. Þetta endurspeglast til dæmis í þætti Gísla Marteins Baldurssonar á RÚV, Vikan með Gísla Marteini.

Um leið og Gísli Marteinn birtist á skjánum er eins og hann hafi alltaf verið þarna og aldrei tekið sér langt hlé til að sinna pólitík. Hann eldist ekki, er í dag eins og hann var í upphafi sjónvarpsferilsins – og minnir alltaf jafn mikið á Tinna. Þar er hann heppinn, öll viljum við líkjast hetjunum okkar, en eiginlega ekkert okkar gerir það. En það er ekki bara að Gísli Marteinn sé aldurslaus, alltaf sýnir hann af sér ljúft viðmót.

Það telst til tíðinda í samtíma þar sem fæst þrífst jafn vel og geðvonskan, sem beinlínis grasserar útum allt.

„Ég vona að þið eigið gott föstudagskvöld, alveg eins og við hérna í stúdíóinu,“ segir Gísli Marteinn og ljómar af hamingju. Jákvæðni hans er afvopnandi. Nöldrararnir, sem ætíð hafa allt á hornum sér, fara eflaust ekki úr hlutverki sínu kveiki þeir á þætti hans og æpa innra með sér: „Af hverju er hann alltaf í svona góðu skapi! Getur hann ekki komið því inn í hausinn á sér að hér er allt að fara til fjandans!“ Aðrir sem hafa ekki látið geðvonskuna ná jafn sterkum tökum á sér brosa ósjálfrátt þegar þeir sjá afslappaðan ljúfling á skjánum og hugsa: „Lífið er bara alveg ágætt. Auðvitað snýst ekki allt um stýrivexti og bifreiðagjöld. Kannski ætti ég bara að fara að hjóla!“

Alls kyns góðar hugmyndir geta nefnilega kviknað í huga fólks þegar það sér aðra í góðu skapi. Þess vegna er Gísli Marteinn á réttum stað í þætti sínum.