Richael Kirkconnell, fyrrverandi þátttakandi í hinum vinsæla raunveruleikaþætti The Bachelor, hefur rétt Pieper James þátttakanda í Bachelor in Paradise, hjálparhönd vegna vandræðalegs hneykslis úr þáttunum.

Þetta kemur fram á vef PageSix.

Kirkconnell hefur sjálf staðið í svipuðum sporum og James stendur nú í. Hún hefur því boðist til að aðstoða hana í gegnum þetta. Þær stöllur voru saman í 25. seríu þáttanna þegar Matt James var í leit að ástinni.

Matt valdi að lokum Kirkconnell en eftir allra síðasta þátt af seríunni kom í ljós að Matt hefði sagt skilið við hana vegna myndbirtingar.

Undir lok 25. þáttaseríunnar voru birtar myndir af Kirkconnell þar sem hún sést klædd í búning frá þeim tíma sem þrælahald var enn við lýði í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Búningnum klæddist hún í veislu árið 2018.

Þótti ljóst að Matt hefði endað samband þeirra vegna viðbragða hennar við málinu. En Matt upplýsti að hann hefði þurft að útskýra fyrir Kirkconnell hvers vegna myndirnar væru rasískar og hvernig veruleiki svartra er í Bandaríkjunum.

Stuttu síðar sættust þau og hófu samband á ný. Í kjölfar þessa máls sagði Chris Harrison, þáttastjórnandi þáttanna frá 2002, af sér. Hann hafði þá valdið usla með því að taka upp hanskann fyrir Kirkconnell.

Pieper James hneykslaði áhorfendur með framgöngu sinni í núverandi þáttaseríu af Bachelor in Paradise líkt og fyrr segir. Pieper mætti seint til leiks í þáttunum en í ljós kom að hún og annar þátttakandi, Brendan Morais, höfðu verið í sambandi fyrir komu sína í þættina.

Þá heyrðist vel til þeirra tala sama um fylgjendur á Instagram og skjátíma hjá ABC sjónvarpsstöðinni sem framleiðir þættina. Þau ræddu mikið sín á milli varðandi fleiri fylgjendur á samfélagsmiðlum og hvaða áhrif þættirnir gætu haft á líf þeirra.

Pieper og Brendan yfirgáfu eyjuna í Mexíkó, hönd í hönd í síðasta þætti seríunnar. Þau hafa fengið gífurlega gagnrýni fyrir framferði sitt í þáttunum. Meðal annars sendi Brendan frá sér yfirlýsingu þar sem hann segist fullur eftirsjár.

Samkvæmt PageSix hefur Kirkconnell sagt Pieper að hún sé til staðar fyrir hana.