Til að tryggja réttar vinnustellingar þurfa vinnuhæð og vinnubúnaður að vera rétt uppstillt. Eygló Egilsdóttir, jógakennari og stofnandi fyrirtækisins Jakkafatajóga, hefur heimsótt vinnustaði og hjálpað fólki í kyrrsetuvinnu að koma hreyfingu inn í daglega rútínu frá því árið 2013.

„Við aðstoðum fólk með réttar vinnustellingar en við leggjum mest upp úr hreyfingu. Vinnustellingin skiptir vissulega máli en það er líka mikilvægt að setja sér þá reglu að standa upp reglulega. Ekkert endilega á klukkutíma fresti, það hentar kannski ekki öllum, en ekki sjaldnar en á 90 mínútna fresti. Það er líka gott að nýta tækifærið þegar maður stendur upp til að sækja sér vatnsglas eða kaffi og gera einhverjar smá hreyfingar fyrir axlir eða háls í leiðinni,“ segir Eygló.

Það er mikilvægt að skipta reglulega um stellingu

Eygló segir að í sambandi við vinnustellingar sé mikið talað um að liðamótin myndi 90 gráðu horn þegar setið er. Það er að segja hné, mjaðmir og olnbogar. „Ég þekki samt engan sem getur setið þannig lengi. Frá okkar sjónarmiði er best að gefa líkamanum pláss. Það eru margir með upphækkanleg borð. Við hvetjum fólk til að setja sér einhverja reglu við notkun þeirra. Það er til dæmis hægt að byrja daginn standandi og setjast þegar maður er orðinn þreyttur eða öfugt. Það er heldur ekki gott að standa of lengi. Það er mikilvægt að skipta reglulega um stellingu og gæta þess að búa ekki til spennu.“

Þegar setið er framan við tölvuskjá í marga klukkutíma á dag er mikilvægt að skjárinn sé rétt stilltur. Eygló segir marga flaska á því. „Fólk er kannski með tvo skjái og annar þeirra er staðsettur þannig að fólk þarf að snúa höfðinu mjög mikið. Það er mikilvægt að sá tölvuskjár sem fólk notar mest sé beint fyrir framan það, ekki of hátt uppi og ekki of lágt niðri. Svo á að hafa aukaskjáinn aðeins til hliðar en kannski ekki alveg 90 gráður til hliðar.“

Öndunin skiptir einnig gríðarlega miklu máli

Eygló telur að stoðkerfisvandamál fólks í kyrrsetuvinnu stafi bæði af langvarandi setu og streitu. „Við sjáum það mikið í þeim hópum sem við heimsækjum inni í fyrirtækjunum að fólki glímir mikið við stífar axlir, stífan háls og ofboðslega grunna öndun.“ Eygló segir að öndunin skipti gríðarlega miklu máli, bæði fyrirskýra hugsun en líka fyrir slökun og að geta tekið rökrétt á málunum. Hún tekur fram að því dýpri sem öndunin er, því meira súrefni kemur inn í kroppinn.

„Svo eru það mjaðmirnar. Við gleymum því stundum að mjaðmirnar eru stærstu og stirðustu liðamótin okkar. Ef okkur líður illa í mjöðmunum getur það haft áhrif upp og niður allan kroppinn. Mjaðmirnar geta haft svakalega mikil áhrif, nánast upp í eyra og niður í tær,“ segir Eygló.

Eygló tekur að lokum fram að ein vinnustelling henti ekki endilega öllum. „Best væri ef allir gætu fengið sérsniðna aðstoð við stillingu á skjáum, borði og stól fyrir sig. Þetta eru svo oft orðin svo flókin tæki. Ég veit mörg dæmi þess að fólk kann ekki að stilla stólana sína. Sem er algjör synd því það er hægt að gera svo rosalega mikið við marga stóla sem getur bætt vinnuaðstöðuna til muna.“