Niðursuðudósir má alls ekki nota undir matarafganga, þegar búið er að opna niðursuðudós er mikilvægt að taka innihaldið úr og fleygja dósinni. Bezt er að geyma hverja tegund matvæla fyrir sig, það má til dæmis aldrei láta soðið kjöt og grænmeti liggja saman nema í stutta stund því fljótlega getur myndast eitrun í kjötinu.

Alla heita matarafganga skal kæla eins fljótt og auðið er, til dæmis með köldu vatnsbaði. Kalt vatnsbað flýtir fyrir kælingunni og einnig að hræra í matnum meðan hann er að kólna, sem á vel við sósur, súpur, jafninga og grauta.

Varhugavert er að geyma flestar tegundir matarafganga lengur en einn til tvo sólarhringa. Hins vegar má frysta ýmsa matarafganga sem getur verið góð leið til geymslu ef plássið er til staðar. Þá eru þeir kældir, settir í loftþéttar umbúðir og frystir. Meðal geymslutíminn er þá um tvær til fjórar vikur.

Nokkur heilræði varðandi geymslu matvæla:

  • Notið margnota umbúðir frekar einnota
  • Notið bara umbúðir sem ætlaðar eru fyrir matvæli
  • Endurnýtið matarumbúðir fyrir svipaðara vörur
  • Vandið valið á plast ef þið notið plastumbúðir
  • Notið polýetýlenfilmu frekar en PVC-filmu
  • Notið frekar ílát úr gleri eða postulíni en plastílát
  • Endurnýtið aldrei niðursuðudósir undir matvæli